131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[11:57]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Í fyrsta lagi varðandi það sem hv. þingmaður sagði um fjölmiðlalögin og álitsgerðir lögfræðinga man ég ekki betur en rignt hafi yfir þjóðina og þingheim lögfræðiálitum um þetta og hitt og þau stönguðust oft á. Ég nefni t.d. 26. gr. um heimild forseta, þar fengum við þrjú mismunandi álit, og ég gat fallist á þau öll, hvert og eitt einasta, ég las þau öll og gat fallist á þau öll.

Varðandi það af hverju ekki hefur reynt á þetta ákvæði, það er bara vegna þess að menn verða að ganga í félag opinberra starfsmanna, þeir neyðast til þess að borga hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem formanni BSRB skatt, af því að ef þeir gera það ekki þá njóta þeir ekki alls konar fyrirgreiðslu sem stéttarfélögin veita, eins og t.d. sumarbústaði og sitthvað fleira, heilsurækt og annað, aðild að sjúkrasjóði o.s.frv. Það væri mjög heimskulegt af fólki, fyrst það verður að borga skattinn, fyrst það verður að borga félagsgjaldið, að nota ekki það sem það fær fyrir það. Þetta er því tilbúin skylda til að vera aðili að félagi.

Hins vegar væri mjög gaman að fá fram dómsmál um þetta, fá fram prófmál, að einhver opinber starfsmaður neitaði að borga í stéttarfélag. Ég gerði það einu sinni. Ég var kennari og neitaði að borga í stéttarfélag en merkilegt nokk, ég komst upp með það, menn gerðu ekkert í málinu. Það er kannski af því að þetta átti við mig.