131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[11:59]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, formanni Samfylkingarinnar, fyrir að taka upp hanskann fyrir verkalýðshreyfinguna. Ég er sammála því sem fram kom í málflutningi hans. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að ef líf verkalýðshreyfingarinnar og sá rammi sem hún starfar samkvæmt stangast á einhvern hátt við stjórnarskrá Íslands þá þarf að endurskoða stjórnarskrána.

Hæstv. forseti. Ég er mjög sjaldan sammála Verslunarráðinu, en ég vil gjarnan að Verslunarráðið lifi. Ég vil bara hafa mótvægi. Ég er mjög sjaldan sammála Samtökum atvinnulífsins, en ég vil gjarnan að Samtök atvinnulífsins séu til. Ég vil bara mótvægi. Ég er ekki alltaf, og kannski mjög sjaldan, sammála stjórnmálaskrifum Morgunblaðsins, en ég vil gjarnan að þau stjórnmálaskrif séu til og að sú rödd heyrist. Ég vil bara að til sé mótvægi.

Ég er nefnilega fylgjandi fjölþátta lýðræðisþjóðfélagi. Slíkt þjóðfélag byggir á jafnvægi. Það byggir á jafnvægi innan vinnustaðanna og jafnvægi í samfélaginu almennt. Hver veitir atvinnurekandavaldinu aðhald og skapar jafnvægið og hver skapar jafnvægið með aðhaldi gagnvart fjármagnsöflunum í samfélaginu önnur en verkalýðshreyfingin? Ef við erum sammála um þetta þarf að tryggja líf verkalýðshreyfingarinnar. Ég er á þeirri skoðun að allir eigi að greiða til stéttarfélaganna vegna þess að sannfæring mín er að líta eigi á stéttarfélögin og verkalýðshreyfinguna sem einn af grunnpóstunum í lýðræðissamfélagi. Þá þurfa slík félög að sjálfsögðu að starfa lýðræðislega og verkalýðshreyfingin einnig. Það er umræða sem ég er tilbúinn að taka og á stöðugt að vera í gangi og er það.

Eitt það fyrsta sem hægri öfgakonan Margaret Thatcher reyndi að fá framgengt í upphafi valdaferils síns, undir lok áttunda áratugarins, og líka fóstbróðir hennar og skoðanabróðir í Bandaríkjunum, Ronald Reagan, var að grafa undan verkalýðshreyfingunni. Þetta hefur verið viðkvæðið hjá öfgafyllstu hægri frjálshyggjumönnum. Ekki almennt hjá hægri sinnuðu fólki, alls ekki, því innan verkalýðshreyfingarinnar starfar fólk úr öllum stjórnmálaflokkum. Vísað var í BSRB. Þar er fjöldinn allur af sjálfstæðismönnum, framsóknarmönnum, samfylkingarfólki, VG og frjálslyndum, sem sagt fólk úr öllum stjórnmálaflokkum. (HBl: Vill ekki Samfylkingin eigna sér verkalýðshreyfinguna?) Jú, því var síðan mótmælt. Ég held að það hafi verið öfugt, að tilteknir starfsmenn verkalýðshreyfingarinnar ætluðu að eigna sér tiltekna aðila innan Samfylkingarinnar, enda risum við þá mörg upp og sögðum að verkalýðshreyfingin væri okkar allra, fólks úr öllum … (Gripið fram í: Heyr heyr.) (HBl: … Samfylkingin dró nú til sín miklar eignir verkalýðshreyfingarinnar eins og við munum þegar slit urðu milli Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins.) Nú er hv. þm. Halldór Blöndal og hæstv. forseti Alþingis kominn í sögulegar rannsóknarvangaveltur sem ég held að þurfi að taka við betra tækifæri.

Það sem ég er að leggja áherslu á er að innan verkalýðshreyfingarinnar er fólk úr öllum stjórnmálaflokkum. Ég er að lýsa viðhorfum öfgafullra hægri frjálshyggjumanna. Frumvarpið sem hér er til umræðu er dæmigert fyrir slíka afstöðu, að grafa undan verkalýðshreyfingunni. Reyndar kemur fram ákveðin mótsögn í þeim málflutningi sem við heyrðum áðan frá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Hann sagði að tekið væri að færast í vöxt að einstaklingar semdu beint við atvinnurekandann inni á vinnustöðum, einstaklingssamningar, en að vísu væri samið um lágmarkssamninga og um lágmarkskjör. Hver skyldi gera það fyrir hönd launafólks? Það gera samtök launafólks. Það gerir verkalýðshreyfingin.

Ég veit ósköp vel að til er fjöldinn allur af fólki, sem betur fer ekki svo ýkja margir hér á landi enn sem komið er, en til eru þeir einstaklingar, hv. þingmaður lýsti sjálfum sér sem slíkum, að hann hefði lagst í mikla mannréttindabaráttu fyrr á tíð til að reyna að komast út úr verkalýðsfélagi. Margir vilja standa utan verkalýðsfélaganna, greiða ekki til þeirra en láta hina borga, láta hina smíða lágmarkskjörin, láta hina smíða lágmarksréttindi, fleyta síðan rjómann ofan af sjálfir en standa utan hreyfingarinnar og axla enga ábyrgð. Þetta finnst mér ósköp vesælt viðhorf. Launafólk á allt að standa að stofnununum til að skapa þessa mikilvægu stoð í lýðræðislegt fjölþátta samfélag.

Ég held líka að það sé að vissu leyti hagsmunamál samfélagsins alls að tryggja breiða aðkomu að verkalýðsfélögunum. Ég hlustaði einu sinni á fróðlegt erindi sem formaður, að ég hygg, háskólamenntaðra starfsmanna ríkis og sveitarfélaga í Svíþjóð hélt hér. Hún talaði fyrir því sjónarmiði að við reyndum að tryggja sem breiðasta aðkomu að verkalýðshreyfingunni og sagði: „Í Frakklandi og víðar er þátttakan í verkalýðsfélögum víða í mörgum greinum orðin mjög lítil. Ég veit alveg hvernig það væri í mínu félagi ef einvörðungu 10%–20% starfsmanna ættu aðild að félaginu, ég veit alveg hverjir það væru og hvaða sjónarmið væru þar uppi.“ Það getur vel verið að það væru einmitt skoðanabræður mínir, ég er ekkert alveg frá því, þeir sem vildu veita fjármagninu sem kröftugast aðhald. En hún sagði: „Er það þetta sem við viljum? Er þetta í anda þess jafnvægis sem samfélagið kallar á? Ég held ekki.“ Það var niðurstaða hennar.

Ef við horfum til þess sem gerist í þinginu t.d., þá vinnum við málin í þessum anda, að kalla að ólík sjónarmið, sjónarmið sem flestra aðila til að varpa ljósi á málin frá öllum hliðum. Ég hef fundið fyrir því og fann það mjög vel áður en ég kom á Alþingi að þingmenn eru þakklátir öllum sem koma á þeirra fund jafnvel þó þeir séu þeim mjög ósammála, vegna þessa mikilvæga hlutverks að varpa ljósi á málin úr öllum áttum.

Ég tel mjög mikilvægt að tryggja aðkomu verkalýðshreyfingarinnar, aðkomu launafólks og málsvara launafólks að slíkri umræðu. Ég held að það sé gott fyrir samfélagið, en þá verður líka hreyfingin að vera til. Þá megum við ekki búa til fyrirkomulag sem gerir það að verkum að þeir sem ekki vilja axla ábyrgð, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sem reyndi að komast út úr verkalýðshreyfingu og komast hjá því að greiða til þessarar sameiginlegu baráttu, að þeir aðilar geti skotið sér undan ábyrgð og látið hina um hituna, látið hina um að fjármagna fundina og vinnuna sem fram fer um aðskiljanleg mál sem lúta að réttindum launafólks og lýðræðinu í samfélaginu.

Þess vegna er ég algerlega ósammála frumvarpinu og þeirri hugsun sem það hvílir á vegna þess að það grefur undan fjölþátta lýðræðissamfélagi.