131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[12:09]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki á sama máli og hv. þm. Ögmundur Jónasson um að BSRB mundi líða undir lok ef ekki væri skylda að greiða í félagið. Ég hugsa að opinberir starfsmenn vilji vera í stéttarfélagi, eða er ekki svo? Hv. þingmaður gerir ráð fyrir að einungis 10%–15% mundu greiða í félagið ef þeir þyrftu þess ekki. Almáttugur. Hvers lags skoðun foringjans er þetta á liðsmönnum sínum? Verslunarráðið og Samtök atvinnulífsins eru ekki með skylduaðild, Samtök iðnaðarins eru eingöngu með skylduaðild. Verslunarráðið þarf að berjast fyrir félagsmönnum sínum, ekki með skylduaðild og það vill ekki fá hana reikna ég með vegna þess að tengslin verða miklu nánari þegar fólkið þarf ekki að borga í félagið. Tengslin yrðu miklu nánari við félagsmenn ef menn þyrftu ekki og yrðu ekki að borga í stéttarfélagið eins um skatt væri að ræða. Þá mundu menn spyrja: Hvað fæ ég fyrir það?

Hv. þingmaður talaði um stöðnun ef ekki yrði skattur á félagsmennina. Það er aldeilis álit sem formaður BSRB hefur á starfi sínu og samtökunum, að fólk vilji ekki vera þarna nema það sé skyldað til þess. Síðan sagði hann að ef skylduaðildin að verkalýðshreyfingunni rækist á stjórnarskrána skyldum við bara breyta henni. Verkalýðshreyfingin á sem sagt að breyta stjórnarskránni. Ég hélt að það væri meira mál en það að breyta stjórnarskránni og þjóðin öll tæki ákvörðun um það en ekki bara BSRB eða formaður þess.

Hvernig skyldi sjálfstæðismanni, samfylkingarmanni eða framsóknarmanni í BSRB líða að þurfa að borga skatt til stéttarfélags síns sem rennur svo til BSRB og fulltrúi þess er kominn á þing og er með allt aðrar skoðanir, hvernig skyldi þessu fólki líða? Það verður að borga skatt til þessa aðila.