131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[12:16]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum árum skrifaði maður að nafni Fukuyama fræga bók sem hét Endalok sögunnar, The End of History. Hann taldi að nú væri lokið öllum átökum um kerfin í heiminum, nú snerist lífið bara um að velja á milli Sparr og OMO út í búð og annarra vörutegunda, þetta væri allt búið. Hann átti þetta sammerkt með Karli gamla Marx sem taldi að sögunni mundi ljúka við byltingu kommúnismans. Ég held að þetta sé svolítil einföldun á framvindunni og að sagan sé nú ekki búin og við eigum eftir að takast á um hvernig við viljum skipa okkar samfélagi og skipuleggja það almennt. Það sem ég er að tala fyrir er að tryggja lýðræðislega aðkomu, fjölþátta aðkomu fólks þannig að fulltrúar fjármagnsins fái aðhald frá launafólkinu. Ég tel að verkalýðshreyfingin eigi að sinna þessu aðhaldi.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal segist hafa átt gott samstarf við verkalýðshreyfinguna og leggja upp úr því að hún sé til, eða hvað? (Gripið fram í.) En að sama skapi lýsir hann því yfir sjálfur að hann hafi reynt — og er að stæra sig af því — að hann hafi sjálfur reynt að komast út úr verkalýðshreyfingunni, hann nefnilega vilji láta aðra borga fyrir þetta. Hann ætlar ekki að gera það sjálfur. Það eru aðrir sem eiga að borga brúsann. Hún á að vera til þessi hreyfing fyrir hann væntanlega. En hann vill bara ekkert borga. Það eru bara hinir sem eiga að borga. Þessu sjónarmiði er ég að andmæla.

Síðan segir hv. þingmaður dálítið sem mér finnst vera nokkuð lýsandi, þ.e. að ef við fáum valfrelsi, innleiðum valfrelsi þá verði verkalýðshreyfingin að fara að hugsa svolítið öðruvísi vegna þess að fólkið mun spyrja: „Hvað fæ ég? En hvað fæ ég?“

Það sem verkalýðshreyfingin hefur lagt mikið upp úr í tímans rás er að byggja á samstöðuhugsun þar sem menn hugsa einmitt ekki á þennan veg, (Gripið fram í.) þ.e. hvað fæ ég, heldur hvers konar samfélag þeir vilja búa til og hvernig þeir fara að því að tryggja félagslegt réttlæti í samfélaginu.