131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[12:32]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir innlegg hans hér og málefnalegar spurningar.

Aðeins í upphafi varðandi samráðið þá er ég er ekki í hópi þeirra sem er mjög heilagur. Ég hef verið talsmaður samvinnu og legg ekki að jöfnu það sem gerist innan verkalýðshreyfingarinnar annars vegar, milli launafólks, og þess sem gerist í Öskjuhlíðinni eða hjá olíufyrirtækjunum hins vegar og minni á að Thatcher talaði á sínum tíma einmitt um verkalýðshreyfinguna sem stærsta einokunarhring landsins þar sem fólk sammæltist um verðlagið á vöru sem heitir vinna. Ég er fylgjandi slíku samráði og tel það vera gott og til þess að styrkja launafólk og stuðla að jöfnuði í þjóðfélaginu sem ég tel vera grundvallaratriði. (Gripið fram í: Líka í lífeyrissjóðunum?) Já, líka í lífeyrissjóðunum þar sem ég vil hækka kjörin upp á við að undanteknum tilteknum hópi sem er reyndar í þessu herbergi.

Síðan varðandi þá grundvallarspurningu sem hv. þingmaður teflir hér fram. Eru til einhverjar millileiðir? Hann dregur upp mynd sem er nokkuð skýr. Annars vegar segir hann, og tekur undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal: Það eru mannréttindi að geta staðið utan félags. Hver og einn á að vera frjáls til þess að ákveða það. Og hann gengur lengra sem mér finnst ágætt að heyra: Ef slíkt er gert á hann að taka öllum afleiðingum gjörða sinna og afsala sér þeim réttindum sem ávinningur kjarabaráttunnar hefur fært. Hann á að taka algjörlega ábyrgð á sjálfum sér.

Hins vegar er hitt sjónarmiðið sem ég er fulltrúi fyrir þar sem sagt er: Við eigum að líta á verkalýðshreyfinguna og samtök launafólks sem hluta af lýðræðisþjóðfélaginu og allir eiga að eiga aðild að því.

Það sem ég held fram er að ef við förum hina leiðina þá snúist frelsið (Forseti hringir.) til að standa utan félags upp í andhverfu sína og ég mun skýra það í síðara andsvari.