131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Losun koltvísýrings.

[13:37]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ríkisstjórnin samþykkti stefnumörkun í loftslagsmálum árið 2002. Þar er m.a. kveðið á um aukna bindingu koltvíoxíðs í gróðri, aðgerðir til að draga úr losun flúorkolefna frá áliðnaði, upptöku olíugjalds í stað þungaskatts og lækkun gjalda á bíla sem nota hreina orku og fleira mætti telja. Nú stendur yfir endurskoðun á þessari stefnumörkun sem á að ljúka á þessu ári.

Þegar þessi mál eru til umræðu í heild sinni er nauðsynlegt að hafa í huga að Ísland stendur vel hvað varðar skuldbindingar sínar gagnvart Kyoto-bókuninni. Allar líkur eru á því að við munum standa við þær að fullu en miðað við nýjustu tölur virðist fáum öðrum þjóðum ætla að takast hið sama.

Í ljósi nýrra upplýsinga um losun koltvíoxíðs úr framræstum mýrum og illa förnu landi er einsýnt að fara verður vandlega yfir málið í umhverfisráðuneytinu og meta það með tilliti til skuldbindinga okkar vegna Kyoto-bókunarinnar. Ég mun óska eftir því við samráðsnefnd ráðuneyta um loftslagsbreytingar sem vinnur að endurskoðuninni að hún skoði sérstaklega aðgerðir sem grípa mætti til í ljósi niðurstaðna nýrra rannsókna og það var einmitt nefnt áðan af háttvirtum frummælanda að einfaldasta aðgerðin í því væri að moka í skurði. Leiði sú skoðun í ljós að þörf sé á frekari rannsóknum á þessu sviði mun ég taka það mál upp í ríkisstjórn.

Þegar er unnið að því með skipulögðum hætti að endurheimta votlendi og græða upp illa farið og örfoka land. Það nýtist við bindingu kolefnis jafnhliða því að endurheimta landgæði. Niðurstöður nýrra rannsókna gefa slíkum aðgerðum aukið vægi og skoða þarf sérstaklega hvort hægt sé að ná mikilli bindingu kolefnis úr andrúmslofti með endurheimt votlendis í ljósi þessara rannsókna. Slík binding mundi bætast við bindingu vegna skógræktar og landgræðslu sem unnið hefur verið að í mörg ár, m.a. í átaksverkefni sem miðaði sérstaklega að því að binda kolefni úr andrúmsloftinu.

Það liggja ekki fyrir nákvæmar tölur um þau votlendissvæði sem framræst voru á síðustu öld. Áætlað er að búið sé að ræsa fram með skurðum 112 þús. hektara lands. Auk þess var töluvert ræst fram með plógræsum. Telja má að heildarflatarmál framræsts lands geti verið um 1.200–1.400 ferkílómetrar. Töluvert af þessu landi er aftur orðið blautt þar sem skurðum hefur ekki alls staðar verið haldið við.

Á vegum votlendisnefndar sem landbúnaðarráðherra skipaði árið 1998 hefur verið unnið að tilraunum við endurheimt votlendis. Fyllt hefur verið upp í skurði og einnig gerðar tilraunir með endurheimt vatna. Þá hefur umhverfisráðuneytið sett skilyrði um endurheimt votlendis í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda þar sem votlendissvæðum er raskað vegna framkvæmda og hafa þá framkvæmdaraðilar unnið að endurheimt votlendissvæða í samvinnu við nefndina. Á vegum nefndarinnar og Umhverfisstofnunar voru unnar tillögur um hvernig meta skyldi röskun á votlendi og jafnframt við hvað skyldi miðað þegar landið væri endurheimt. Vegna þessa hefur Vegagerðin, m.a. í góðri samvinnu við votlendisnefndina, endurheimt stór votlendissvæði vegna vegagerðar á Vestur-, Norður- og Austurlandi þar sem þurfti að fara með veg um votlendi.

Útstreymi og binding kolefnis úr andrúmslofti vegna landnýtingar er án efa flóknasti þátturinn í því bókhaldi sem Íslandi og öðrum ríkjum er skylt að halda og skila árlega til skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Umhverfisstofnun heldur utan um loftslagsbókhald Íslands og nýtur aðstoðar ýmissa stofnana og sérfræðinga, m.a. á sviði landbúnaðar og landnýtingar. Í bókhaldinu er farið eftir leiðbeiningum frá skrifstofu samningsins og hún fer reglulega yfir bókhaldið, t.d. með sérstakri heimsókn úttektarnefndar hingað til lands í fyrra.

Það er ekki pólitísk ákvörðun hvort útstreymi frá framræstum mýrum verður tekið inn í loftslagsbókhald Íslands heldur verður það að fylgja alþjóðlegum viðmiðunum og leiðbeiningum. Loftslagsbókhaldinu er ætlað að mæla áhrif þeirra aðgerða sem gripið er til á hverju ári. Árið 1990 er viðmiðunarár varðandi skuldbindingar ríkja samkvæmt Kyoto-bókuninni.