131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Losun koltvísýrings.

[13:47]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er til umræðu losun koltvísýrings. Það er hægt að ræða þetta mál út frá ótal hliðum, út frá framræslu mýra og allt til álvera. Einnig má velta upp hver möguleg áhrif aukins styrks gróðurhúsalofttegunda eru í andrúmsloftinu. Öllum má ljóst vera að það er nauðsyn að auka rannsóknir á hver raunveruleg áhrif eru og hver hlýnunin verður. Staðreyndin er sú að þessir spádómar byggja oft ekki á mjög traustum grunni og þess vegna er nauðsynlegt að byggja undir þá spádóma. Ýmsir, jafnvel prófessorar í Háskóla Íslands, hafa gert sig seka um það að spá fyrir um ýmsa þætti út frá mjög veikum forsendum, svo sem um stærð fiskstofna áratugi fram í tímann, stofna sem menn geta ekki spáð um ár fram í tímann og hvað þá tvö ár fram í tímann. Auðvitað sjá allir að að slíkir spádómar eru hrein og klár vitleysa og þess vegna ber að ræða þessa hluti af varfærni.

Umhverfisstofnun hefur tekið saman leiðir um hvernig á að taka á þessum málum. Efst á þeim lista var einmitt að ræða samgöngumál, auka hlut dísilbifreiða og minnka hlut bensínbifreiða. Annar þáttur var að auka þátt almenningssamgangna og það höfum við í Frjálslynda flokknum tekið heils hugar undir og m.a. flutt um það tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur sem því miður var felld af fulltrúum R-listans eða vísað frá. Ég tek undir það að rétt er að hafa áhyggjur af stöðu mála og auka rannsóknir á þessu sviði og treysta grunn vísindamanna til þess að veita okkur góða ráðgjöf í þessum efnum.