131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[14:03]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég þakka umræðuna um þetta mál sem við vorum að ræða fyrir hádegi og í hádeginu. Það kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að sumir vildu njóta ávaxtanna af starfi verkalýðshreyfingarinnar en ekki borga brúsann. Þetta held ég að sé ekki rétt. Hið rétta er að menn sjá kannski ekki ávinning af starfsemi stéttarfélaganna í dag vegna þess hve mikið hefur áunnist og hve mikið af þeim baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar sem voru á fyrri hluta síðustu aldar meginmálið er komið í lög og reglur ríkisins. Auðvitað þarf áfram að vinna að þróun velferðarkerfisins og enn eru fjöldamörg verkefni óleyst þannig að ég hugsa að þó að aðildin að stéttarfélögunum yrði frjáls mundi fólk sjá hag sinn í því að vera félagar í stéttarfélagi vegna þess sem það nær fram. Þá væri kannski meiri krafa til þess að þau stæðu vel að verki sem ekki er þegar menn verða að borga til þeirra hvort sem þeim líkar vel eða illa. Þá vantar allt aðhald.

Mér fannst vanta í umræðuna, sérstaklega þegar fram kom vantrú formanns BSRB á það að fólk vildi borga í stéttarfélög opinberra starfsmanna af frjálsum vilja, hvers vegna menn ganga í og stofna félög. Það er auðvitað til að ná fram samtakamætti, eingöngu til þess. Menn ganga í félög til að ná fram samtakamætti og ég er ekki sömu skoðunar og formaður BSRB viðraði, að fólk mundi ekki vilja ganga í stéttarfélög. Ég held að mjög margir mundu vilja það af því að þeir hafa trú á því að þau hafi hlutverk áfram.

Það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi var eiginlega sú einstaklingshyggja sem mér finnst vera mjög vaxandi í þjóðfélaginu og kristallaðist kannski í umræðunni um öryrkjamálið þegar öll stjórnarandstaðan sem telst þó vera vinstri sinnuð gekk fram í því að dásama einstaklingshyggjuna, þ.e. líta á einstaklinginn sem meginmál en ekki maka hans eða fjölskylduna. Það var litið fram hjá samtakamætti fjölskyldunnar, og mjög kristaltær einstaklingshyggja réði ríkjum í þeim málflutningi öllum. Það er í sjálfu sér ágætt frá mínu sjónarhorni.

Það var í umræðunni að vera þyrfti gagnkvæm virðing á milli stéttarfélaga og félagsmanna þeirra og eins á milli stéttarfélaganna og atvinnurekenda og ég held að svo sé nema að því er varðar samband stéttarfélaganna við félagsmenn sína. Stéttarfélögin þurfa ekki að sýna félagsmönnum sínum virðingu. Þeir borga hvort sem þeir vilja eða ekki og það er ekki hollt fyrir stéttarfélögin, enda fannst mér það koma fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar, formanns BSRB, þegar hann sagði að ef stjórnarskráin leiddi til þess að þetta ákvæði væri ekki gilt ætti bara að breyta stjórnarskránni. Það væri aldeilis munur ef hann gæti bara breytt stjórnarskránni þegar honum líkar ekki hvernig hún er. Það var ekkert verið að spyrja hvort almenningur mundi vilja það, þjóðin sjálf, nei, nei, verkalýðshreyfingin mundi bara breyta stjórnarskránni. Það er hin gagnkvæma virðing hv. þm. Ögmundar Jónassonar við bæði kjósendur og félagsmenn sína í stéttarfélögunum, ef þeir eru ekki skyldaðir til að greiða honum skatt bara breytum við stjórnarskránni.

Ég má til að ræða um það að BSRB er að stunda stjórnmál. (Gripið fram í.) BSRB stundar stjórnmál. BSRB býður fólki utan úr heimi til að ræða um GATT-samninginn. BSRB hefur lagt fram mjög skemmtilegar hugmyndir um skattamál sem ég er hlynntur. Ég hef lagt fram frumvarp á sömu nótum þannig að ég er mjög ánægður með það. BSRB hefur verið að ræða um umhverfismál, vatnsskattinn o.s.frv. og ég spyr mig: Sjálfstæðismaður í BSRB sem er neyddur til að borga skatt og greiða þessa starfsemi BSRB, hvað skyldi gerast ef hann væri á öndverðri skoðun og hann er neyddur til að borga einhvern áróður gegn sínum eigin skoðunum? Hvar er málfrelsið? Hvar er skoðanafrelsið?

Hvað mundi gerast með t.d. samfylkingarmann svo maður tali ekki um vinstri grænan mann, þ.e. einhvern sem elskar skatta, þegar hann les svo skattstefnu BSRB sem er borguð með peningunum hans? Það er ekki víst að hann sé á sömu skoðun eða sumt fólk sem er ekki á þeirri skoðun sem BSRB hefur komið með í umhverfismálum. Það verður samt að borga þessa skoðun og útdeilingu hennar um allt. Það er verið að borga fyrir það að þeirri skoðun sé komið um allt með hans eigin peningum. Ég er ekkert viss um að allir félagsmenn BSRB sem verða að borga þarna inn séu sáttir við það sem verið er að gera.

Ólíkt hafast að BSRB og ASÍ eftir að stjórnarskránni var breytt varðandi félagsaðild, aðallega skattlagningu. ASÍ hefur verið að vinna í því að laga reglugerðir sínar og samninga þannig að það stangist ekki á við aðildarskylduna en BSRB berst eindregið gegn því að það sé tekið úr lögum að það sé skylda að vera í stéttarfélagi.

Það verður ekki rætt um stéttarfélög öðruvísi en að ræða um lífeyrissjóðina. Þar eru ógnvænleg völd. Nú eru eignir lífeyrissjóðanna að skríða yfir eitt þúsund milljarða. Þeir eru kaupandi hlutabréf alla daga, bæði innan lands og erlendis, lánandi peninga og hafa gífurleg völd. Þeir hafa völdin í hlutafélögum, skipa menn í stjórnir, stjórnirnar ráða svo forstjóra o.s.frv., þetta er ósköp indælt, allt fyrir annarra manna peninga, allt saman með skylduaðild manna og sjóðfélagarnir hafa engin áhrif. Þeir skulu borga í BSRB, inn í félagið, hvort sem þeir vilja vera með eða ekki.

Hér kom eiginlega fram sú skoðun að félagafrelsið væri öfgafrjálshyggja og samt er þetta ákvæði í flestum stjórnarskrám. Mér finnst þetta alveg út í hött. Að sjálfsögðu er þetta ekki öfgafrjálshyggja, þetta er ekki frjálshyggja yfirleitt. Þetta heitir mannréttindi. Mig langar til að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson sömu spurningar og hér var spurt áðan ef hann skyldi taka til máls á eftir — ég get náttúrlega ekki neytt hann til þess en ég heyri að hann er búinn að kveðja sér hljóðs: Er hann á móti félagafrelsi eða er hann hlynntur því? Vill hann hafa þetta ákvæði inni eða ekki? Telur hann e.t.v. að þetta sé einhvers konar þjónustugjald sem menn séu að borga með því að borga í félag án þess að vera í því og hvað þá með alls konar fyrirbæri eins og sumarbústaði sem maðurinn ekki fær af því að hann er ekki í félaginu? Sumarbústaðirnir kosta óhemju mikið. Ég er viss um að ekki nokkur einasti maður mundi vilja borga það fyrir sumarbústaði sem þeir kosta. Menn borga ekki nema brot af því sjálfir, þ.e. þeir borga restina í gegnum félagsgjöldin. Þetta er mjög einföld spurning til hv. þingmanns: Er hann hlynntur félagafrelsi eða er hann ekki hlynntur félagafrelsi?

Hér var rætt nokkuð um önnur samtök atvinnulífsins, Verslunarráðið, Samtök atvinnulífsins o.s.frv. Það eru tvenn samtök sem skera sig úr og þau eru nefnd í þessu frumvarpi, Samtök iðnaðarins og Bændasamtökin. Þau hafa það nákvæmlega eins og BSRB, skylduaðild. Menn skulu borga skatt inn í félagið hvort sem þeir vilja eða ekki og það er einmitt það sem ég legg til að hv. Alþingi skoði líka til breytinga.

Það er ljóst að velferðarkerfið hefur verið mótað að miklu leyti af verkalýðshreyfingunni, af fátæku fólki sem bast samtökum af því að það vildi það og náði fram breytingum á velferðarkerfinu, náði fram hækkun á launum, uppsagnarfresti, veikindaleyfi, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum — það eru miklar breytingar sem samtakamáttur launafólks hefur náð fram. Það sem hefur því miður gerst er það að verkalýðshreyfingin hefur stofnanagerst. Hún er búin að koma sér upp þægilegum skatti, fólk þarf ekki að borga til hennar af því að það langi til þess — það skal borga til hennar og hún er farin að lifa allt of þægilegu lífi. Ég tel að það yrði verkalýðshreyfingunni til mikilla bóta ef það væri ekki skylduaðild að henni og hún þyrfti virkilega að sýna fólki af hverju það þarf að hafa samtakamátt og vera í stéttarfélagi. Þá mundi verkalýðshreyfingin ganga í árdaga drauma sinna, vaxa og dafna aftur og vera ekki aðallega að hugsa um völdin í lífeyrissjóðunum.

Verðmæti velferðarkerfisins er ómælt fyrir atvinnulífið, fyrir þjóðfélagið. Það skiptir verulegu máli í samkeppnisstöðu fyrirtækja, þegar þau ákveða hvar þau setja sig niður. Það skiptir líka máli fyrir fólk hvar það velur sér að starfa, í hvaða landi. Velferðarkerfið er hluti af starfskjörunum. Á þessu eru allir búnir að átta sig á fyrir löngu þannig að það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að halda því fram að menn séu einhvern veginn á móti velferðarkerfinu þó að þeir séu á móti staðlaðri og stofnanagerðri verkalýðshreyfingu sem reyndar er að gera átak í því að leiða sig út úr þessu nema BSRB sem berst hatrammlega gegn þessu frumvarpi um að breyta því að menn séu skyldaðir með lögum til að borga í stéttarfélög.

En ég þakka þessa umræðu. Hún hefur verið mjög góð og að miklu leyti málefnaleg. Auðvitað rekast á ákveðnir hagsmunir og sjónarmið og það er eðlilegt. Til þess er umræðan. Ég vil að lokinni umræðu leggja til að þessu frumvarpi verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar. Ég vona að það fái góða meðferð, verði skoðað, vonandi afgreitt út og verði að lögum.