131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[14:15]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef oft velt því fyrir mér hve margar mótsagnir rúmist í einum manni. Í hv. þm. Pétri H. Blöndal rúmast mjög margar og þær komu fram ekki svo fáar í máli hans hér áðan.

Hann talar um pólitík verkalýðssamtakanna og staðnæmist sérstaklega við BSRB. BSRB hefur sett fram skattstefnu, segir hann. Ég er mjög hrifinn af þeirri skattstefnu, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal. En hvað segja hægri menn um slíka stefnu? Ég læt bara hlustendur og hv. þingmenn um að dæma þennan málflutning þó að ég vilji leiðrétta hv. þingmann að því leyti að það er veigamikill munur á þeim markmiðum sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur sett hér í mótun sinnar skattstefnu annars vegar og BSRB hins vegar.

BSRB, eins og reyndar verkalýðshreyfingin öll, hefur reynt að kappkosta að byggja á mjög lýðræðislegu starfi í öllu því sem tengist stjórnmálum og pólitík, sem lýtur að skipulagi samfélagsins. Það er keppikefli verkalýðshreyfingarinnar allrar, ekki aðeins hér á landi heldur um allan heiminn, að hafa áhrif á það sem er að gerast á samningasviði Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar svo að dæmi sé tekið, GATT-samninganna sem hv. þingmaður vísaði til og þjónustutilskipunar Evrópusambandsins. Fleira mætti telja sem snertir sjálfan grundvöll samfélagsins, velferðarþjóðfélagið sem verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir á undanförnum árum.

Hv. þingmaður beindi til mín nokkrum spurningum, m.a. um félagafrelsi. Já, ég hef verið fylgjandi félagafrelsi innan verkalýðshreyfingarinnar. Það hefur oft reynt á það og ég hef stillt mér þar upp. Þegar kemur hins vegar að þeirri spurningu sem ég veit að hv. þingmaður er að beina til mín, hvort mér finnist að menn eigi að vera frjálsir að því að greiða til verkalýðsfélaga, (Forseti hringir.) tel ég að það eigi að vera skylda að greiða til verkalýðshreyfinga. Ég hef aldrei farið neitt í grafgötur með þá skoðun.

(Forseti (JBjart): Forseti minnir hv. þingmenn á þröng tímamörk í andsvörum.)