131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Endurnýjanlegir, innlendir orkugjafar í samgöngum.

52. mál
[14:25]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrsti flutningsmaður að þessu þingmáli er hv. þm. Össur Skarphéðinsson en samfylkingarþingmenn flytja það allir saman undir forustu hans. Ég hleyp í skarðið fyrir formann flokksins við að flytja þetta mál vegna þess að hann hafði ekki tök á því að vera hér staddur núna en ástæðulaust er að fresta því að málið komi til afgreiðslu við fyrri umr.

Þetta er tillaga til þingsályktunar um aukna notkun endurnýjanlegra, innlendra orkugjafa í samgöngum. Tillögugreinin er eftirfarandi:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera heildstæða áætlun um aðgerðir til að auka notkun farartækja sem nýta endurnýjanlega, innlenda orkugjafa. Miðað verði við að árið 2020 verði fjórðungur nýrra bifreiða knúinn slíkum orkugjöfum.

Áætlunin feli meðal annars í sér tillögur um lagabreytingar er veiti fjármálaráðherra heimild til að fella niður svo lengi sem þurfa þykir öll opinber gjöld, svo sem virðisaukaskatt, vörugjöld og þungaskatt:

a. af samgöngutækjum sem nýta endurnýjanlega orkugjafa,

b. af búnaði sem nýttur er til að framleiða nýja endurnýjanlega orkugjafa á Íslandi,

c. af endurnýjanlegum orkugjöfum sem framleiddir er hér á landi í því skyni að knýja samgöngutæki.

Áætlunin feli jafnframt í sér tillögur að samstarfi ríkis við sveitarfélög um aðgerðir sem hvetja til nýtingar innlendra orkugjafa, svo sem tímabundna styrki vegna almenningsvagna, um rannsóknir sem ýtt gætu undir þróun vistvænna samgangna og um aðrar aðgerðir sem gætu dregið úr mengun frá samgöngutækjum.

Áætlunin verði lögð fyrir Alþingi eigi síðar en fyrir lok vorþings 2006 á að standa en vegna þess að hér er verið að endurflytja þessa tillögu, hún var flutt á síðasta þingi, 130. löggjafarþingi en var þá ekki útrædd, hafði láðst að breyta ártalinu í lok tillögugreinarinnar.

Eins og ég sagði áðan var tillagan flutt á síðasta löggjafarþingi og er flutt aftur núna. Þá var mælt fyrir henni í Alþingi og ég hyggst ekki fara yfir alla þá greinargerð sem hér fylgir, enda er hún lengri en að svo geti orðið. Ég vil fara yfir upphaf hennar:

Samgöngur valda gríðarlegri mengun í formi gróðurhúsalofttegunda sem verða til við bruna eldsneytis sem á uppruna sinn í jörðu. Gróðurhúsalofttegundirnar verða að eins konar hitagildru sem kemur í veg fyrir að hiti geislist frá jörðu út í geiminn. Hlýnun á sér því stað í andrúmsloftinu. Ekki er lengur deilt um að hlýnunin geti raskað umhverfi jarðarinnar verulega. Auk þess veldur brennsla jarðefnaeldsneytis í farartækjum margvíslegri loftmengun sem m.a. hefur áhrif á heilsu fólks. Minni notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum mun því til lengri tíma einnig auka heilbrigði og lífsgæði samfara því að draga úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu.

Áhrif vaxandi styrks gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti gætu orðið geigvænleg. Breytt straumakerfi sem drægi úr Golfstraumnum gæti hugsanlega haft mikil áhrif á gengd fiskstofna og búsetuskilyrði, m.a. í okkar heimshluta. Rannsóknir á borkjörnum úr Grænlandsjökli, þar sem íslenskir vísindamenn hafa verið í forustu, benda til að skjót hlýnun andrúmsloftsins geti verið undanfari ísalda sem skella á með litlum fyrirvara. Hröð hlýnun af völdum útstreymis gróðurhúsalofttegunda hefur því verið skilgreind sem ein mesta vá sem steðjar að mannkyninu. Víðs vegar um heim eru stjórnvöld að grípa til aðgerða gegn henni. Kyoto-samningurinn er besta dæmið. — Hann hefur verið til umræðu undanfarna daga vegna þess að nú eru ákvæði hans loksins gengin í gildi.

Miklar vonir standa til að innan fárra ára hefjist fjöldaframleiðsla farartækja sem knúin verða með mengunarlausum orkuberum í stað mengandi jarðefnaeldsneytis. Tækist það — sem er einungis tímaspursmál hvenær verður — yrðu tímamót í umhverfisvernd. Í þeirri þróun eiga Íslendingar kost á að leika veigamikið hlutverk. Náttúrulegar auðlindir okkar bjóða upp á fágæta möguleika til að þróa samgöngur sem byggjast að langstærstum hluta á innlendum orkugjöfum. Þar ber að sönnu hæst þá miklu möguleika sem felast í að nýta vetni og rafmagn til samgangna en ekki má heldur horfa fram hjá tækifærum sem liggja í að nota metan og metanól. Notkun tveggja síðasttöldu orkuberanna er að sönnu ekki laus við myndun gróðurhúsalofttegunda en mengun af þeirra völdum er hins vegar miklu minni en vegna olíu og bensíns. Því er einnig mikilvægt að búa í haginn fyrir notkun þeirra. Þá er einnig rétt að hafa í huga að áætlanir um skógrækt í atvinnuskyni sem nú eru komnar til framkvæmda í öllum landshlutum munu í framtíðinni gefa af sér afurðir sem gætu nýst vel til framleiðslu á lífrænu endurnýjanlegu eldsneyti en hún er líkleg til að auka arðsemi þeirra verkefna. Í þeirri tillögu eru samgöngur sem byggjast á öllum framangreindum innlendum orkugjöfum því skilgreindar sem endurnýjanlegar samgöngur. Heimildirnar sem lagt er til í þessari þingsályktunartillögu að stjórnvöld fái ná sömuleiðis til allra áðurgreindra orkugjafa.

Við framleiðslu endurnýjanlegra orkubera, svo sem vetnis og rafmagns, verða flestar þjóðir að nýta að einhverju marki eldsneyti eða hráefni sem er af uppruna jarðefna og fæst með námagreftri, svo sem kol, olíu eða jarðgas. Við umbreytingu þeirra í hreina orkugjafa verður jafnan einhver losun gróðurhúsalofttegunda. Íslendingar, nær einir þjóða, eiga hins vegar kost á því að nýta náttúrulegar, endurnýjanlegar auðlindir í formi vatnsafls og jarðhita, til að framleiða vetni og rafmagn án þess að nokkur losun gróðurhúsalofttegunda verði við framleiðsluna. Í þessu felst mikilvæg sérstaða Íslands.

Íslendingar búa ekki aðeins að endurnýjanlegum auðlindum. Hér á landi er einnig einstök þekking og reynsla í framleiðslu þessara orkugjafa. Við Háskóla Íslands hefur dr. Bragi Árnason unnið ómetanlegt starf við þróun á framleiðslu vetnis og nýtingu þess til samgangna. Dr. Bragi hefur m.a. kynnt stórmerkar hugmyndir sem byggjast á því að nýta útblástur frá stóriðjuverunum til að framleiða metanól en í slíku framleiðsluferli fellur það vel undir skilgreiningu á endurnýjanlegu eldsneyti. Þá er ónefnt framlag Íslenskrar nýorku ehf. á sviði vetnisnýtingar sem vakið hefur heimsathygli. Fyrirtækið rekur fyrstu og einu vetnisdreifingarstöð Íslendinga í samvinnu við olíufyrirtæki og sömuleiðis nokkra almenningsvagna sem ganga fyrir vetni, auk þess að sinna þróunar- og rannsóknarvinnu varðandi vetni. Ekki þarf heldur að fjölyrða um þekkingu okkar Íslendinga á sviði raforkuframleiðslu. Fyrir utan mikla þekkingu á virkjun fallvatna er hvergi í heiminum jafnmikil reynsla og á Íslandi af því að framleiða rafmagn úr jarðhita.

Íslendingar ættu því að geta lagt mikið af mörkum til umhverfisverndar í heiminum með því að þróa þá tækni sem þarf til að nýta mengunarlausa orkugjafa til samgangna. Mikil orka í formi jarðhita er víða ónýtt. Má í því sambandi rifja upp frumkvæði Samfylkingarinnar varðandi orkuvinnslu úr lághita en þingsályktunartillaga flokksins sem Örlygur Hnefill Jónsson var fyrsti flutningsmaður að var samþykkt á Alþingi 3. maí 2002. Sömuleiðis eru sums staðar góðar aðstæður hér á landi til að framleiða orku með vindmyllum en þeirri tækni fleygir nú fram erlendis auk þess sem Íslendingar hafa sinnt rannsóknum á beislun vindafls. Engin ástæða er til að ætla annað en að hér á landi verði framleidd orka með þeim hætti í framtíðinni. Við bestu aðstæður gætum við orðið útflytjendur á vetni til að knýja samgöngur utan Íslands. Frumkvæði og forganga Íslands á þessu sviði getur því ef rétt er á haldið einnig skapað margvísleg efnahagsleg tækifæri.

Sérstaða okkar Íslendinga í þessum efnum er slík að fullyrða má að okkur beri siðferðileg skylda til að taka að okkur forustuhlutverk í þessum efnum.

Hæstv. forseti. Auðvitað eru þessi mál öll merkileg og það er full ástæða til þess að hér á Alþingi sé ýtt á eftir því að stjórnvöld fylgi þessum málum sem allra fastast fram. Á það hefur reyndar vantað þó að ýmislegt hafi verið gott gert. Það er t.d. full ástæða til að ræða alvarlega um það hvers vegna okkur hefur ekki miðað meira en raun ber vitni hvað það varðar að beina notkun okkar á bifreiðum í skynsamlegri áttir en við höfum gert. Hér gætu verið miklu fleiri dísilbílar, hér gætu verið miklu fleiri bílar sem eyddu minni orku og minna bensíni en þeir gera en vegna þeirra reglna sem við höfum haft hér í sambandi við skatta af innflutningi á bílum og vegna þess að hvatningu hefur vantað til þess að fólk kaupi bíla sem eru þannig að þeir eyða minni orku hefur ekki nógu mikið gerst í þessum málum. Það er spurning hvort stjórnvöldum væri ekki hollara að horfa í eigin barm og velta fyrir sér hvaða áhrif þau geti haft í viðbót.

Hver var síðasta ákvörðun hér hvað varðar bíla? Hún var fólgin í því að hvetja menn til að kaupa sér stóra jeppa. Ég held að þar hafi ekki verið skynsamleg ráðstöfun á ferðinni. Miklu nær hefði verið að breyta reglum þannig að fólki hefði orðið hvatning til þess að kaupa sparneytnari bíla, bíla sem eyða þá dísilolíu frekar en bensíni og bíla sem gætu hugsanlega nýtt sér aðra orkugjafa en þá tvo sem ég nefndi.

Margt annað er auðvitað hægt að gera. Við erum hér með gríðarlega stóran fiskiskipaflota. Við höfum ekki beitt neinum reglum sem hafa haft einhver áhrif á það hvernig menn nýta orku í sjávarútveginum. Sú þróun sem þar hefur orðið hefur einungis orðið út frá sjónarmiðum útgerðarmannanna sjálfra og án tillits til þess hvort hugsanlegt væri að beina t.d. orkunýtingunni í aðra farvegi. Það er augljóst að miklu minni orka fer í að veiða hvert kíló af fiski sem veiddur er á línu en ef það er veitt í troll. Þó hefur ekki verið gerð nein tilraun til að hafa áhrif á það að menn nýti frekar veiðarfæri sem spara orku eða menga minna. Þvert á móti er ákveðin hvatning fólgin í því að nýta orkufrekari veiðarfærin þrátt fyrir að sá hópur fiskiskipa veiði meira af smærri fiski en gerist að meðaltali í flotanum.

Það er alveg hægt að hafa sérumræðu um þessa hluti en þarna hefur verið á ferðinni fram að þessu líklega u.þ.b. þriðjungur af orkunýtingu okkar. Okkur vantar verulega stefnumörkun hvað þetta varðar, þá er ég að tala um fiskiskipaflotann. Í bílaflotann fer gríðarlega mikið af þeirri orku sem hér er eytt og þar gætum við líka haft mikil áhrif. Allt er þetta ákaflega stórt mál en ég held að þessi tillaga hér geti verið gott lóð á þær vogarskálar að kalla fram umræðu um þessi efni.