131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Endurnýjanlegir, innlendir orkugjafar í samgöngum.

52. mál
[14:56]

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Ég tek undir það sem fram hefur komið og get ekki annað en tekið undir þau markmið sem sett eru í þessari tillögu til þingsályktunar um aukna notkun á endurnýjanlegum og innlendum orkugjöfum í samgöngum. Eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni sýnir það þunga hv. þingmanna Samfylkingarinnar að allur þingflokkurinn stendur að málinu og hv. þm. Þuríður Backman sagði að það félli vel að hugmyndafræði flokks hennar.

Ég tek undir markmið þingsályktunartillögunnar en flutningsmenn hefðu getað kynnt sér stöðu málaflokksins örlítið betur því að að þessum málum er unnið og stefnumörkunin liggur fyrir og er það sem upp á vantar í vinnslu. Nefnd skilaði til ríkisstjórnar 1997, ef ég man rétt, og önnur nefnd á vegum iðnaðarráðuneytis, samgönguráðuneytis, fjármálaráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis svo einhver ráðuneyti séu nefnd. Þau eru einmitt með þessi mál, þessa heildarsýn sem nær yfir flest ráðuneyti um skattalegt umhverfi og þar fram eftir götunum, þetta er í vinnslu þar. Sem kunnugt er er ríkisstjórn Íslands sú fyrsta í veröldinni sem lýsir því yfir að hafa það sem pólitískt markmið að Ísland verði vetnisríki, hið fyrsta í veröldinni.

Það má því segja að markmið þingsályktunartillögunnar falli mjög vel að stefnu ríkisstjórnarinnar og ber auðvitað að túlka hana sem stuðning við stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum enda er þetta líklega eitt af þeim málum sem væntanlega er nokkuð þverpólitísk samstaða um, málið er af þeim toga.

Það hefur sannarlega náðst mikill árangur á þessu sviði. Stefnumörkunin er nokkuð skýr og hefur vakið verðskuldaða alþjóðlega athygli. Fjallað hefur verið um stefnu Íslands í þessum málum í hátt á fimmta hundrað erlendum fjölmiðlum. Íslandi hefur verið boðið sæti meðal stærstu þjóða heims í fyrstu alþjóðlegu samtökunum um vetnismálin og Íslandi er boðið, einu af 14 ríkjum, að taka sæti þar vegna þessarar stefnumörkunar.

Á þeim stutta tíma sem hér er til umræðu má aðeins hlaupa yfir það sem gerst hefur varðandi vistvæna orkugjafa í samgöngum. Benda má á að nú þegar eru um og yfir 20 bílar á götum höfuðborgarinnar knúnir metangasi, þökk sé mikilli framsýni og dugnaði Ögmundar Einarssonar, framkvæmdastjóra Sorpu, og fleiri slíkir bílar á leiðinni.

Þegar eru komnir líklega hátt í 20 rafmagnsbílar. Þeir komu hingað fyrir ekki svo mörgum árum og hafa nýst ágætlega hjá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og á Akureyri. Hér eru þegar þrír vetnisstrætisvagnar og ekki má gleyma fyrstu vetnisstöðinni í veröldinni sem er sérlega byggð til að fylla á vetnisbíla. Á vegum fyrirtækisins Íslenskrar NýOrku, sem er eiginlega vettvangur stjórnvalda til að annast framkvæmd þessarar stefnumörkunar í samstarfi við þrjú virt og stór alþjóðleg fyrirtæki, er unnið að enn frekari áætlunum sem eru í bígerð með ýmsum innlendum og erlendum samstarfsaðilum. Má þar nefna frekari innflutning á bílum hjá ýmsum bílaframleiðendum, framleiðslu og jafnvel útflutning á vetni. Fyrsta sérsmíðaða vetnisknúna skipið er á teikniborðinu og áfram má telja.

Grundvallaratriði í þessu er að Íslendingar hafa boðið Ísland sem tilraunavettvang fyrir þessa nýju og byltingarkenndu tækni sem á eftir að valda miklum straumhvörfum ekki bara í umhverfismálum heldur líka í efnahagsmálum og síðast en ekki síst lýtur þetta að pólitísku orkulegu sjálfstæði sem þjóðir eru farnar að líta meira og meira til, þ.e. að geta framleitt sitt eigið eldsneyti en þurfa ekki að vera háðir óróa t.d. í Austurlöndum sem hefur áhrif beint á efnahagslífið.

Það má segja að hvað samgöngur varðar séum við á ákveðnum tímamótum því að flestir bílaframleiðendur veraldar hafa lýst því yfir að þeir veðji á efnarafala og vetni sem framtíðartækni í bílunum. Það má segja að sprengihreyfillinn með jarðefnaeldsneyti hafi verið einkennandi fyrir síðustu öld og menn spá því að efnarafall og vetni verði einkennandi fyrir þá öld sem ný er gengin í garð. Vandinn verður hins vegar sá að brúa þetta bil. Þróunin hefur verið mjög ör og hefur gerst ævintýralega hratt á síðustu fimm árum. Þeir vetnisbílar með efnarafölum sem lengst eru komnir núna geta ekið um það bil 500 kílómetra á fyllingunni og afskaplega lítið fer fyrir búnaðinum. Maður verður vart var við hann í þessum bílum öfugt við það sem var fyrir svona sjö árum þegar bílarnir voru fullir af alls konar tækjum og tólum sem hafa síðan horfið, þökk sé undraverðum árangri góðra vísindamanna.

Svo er það sem við þurfum að gera innan lands. Stefnumörkun liggur fyrir og ég hef áður vísað til þeirrar nefndar sem hefur skilað starfi og ráðuneytavinnuhópa sem eru að störfum við að fara yfir skattaumhverfið. En svo þurfa sveitarfélögin líka, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, að móta sér stefnu um þetta eins og gert hefur verið víða erlendis, svo sem að koma upp tenglum, forgangi vistvænna ökutækja og þar fram eftir götunum. Þetta getum við séð í nokkrum nágrannaborgum okkar þar sem vistvænir bílar fá eiginlega forgangshraða og forgang í umferðinni rétt eins og almenningssamgöngutæki. Ríkisstjórnin hefur sína stefnumörkun og hefur lagt beint fé í það sem hér hefur verið gert. En það verða fyrst og fremst bílaframleiðendur sjálfir sem munu ráða hraðanum á þessari tækni því það eru þeir sem framleiða bílana og framfarirnar sem orðið hafa á síðustu fimm árum, eins og ég nefndi áðan, eru ævintýri líkastar. Það mun gerast núna á allra næstu missirum að fyrstu bílaframleiðendurnir fara að koma, í takmörkuðu magni þó, vetnisknúnum bílum á hinn almenna markað. Fram að því munum við sjá lausnir eins og rafmagnsbíla, metangasbíla, bíla sem nota vetni á sprengjuhreyfla sem er þó ekki eins hagkvæmt og vetni á efnarafölum og þar fram eftir götunum. Við höfum markað þá stefnu og vakið athygli fyrir að vera fyrsta landið sem lýsir því opinberlega yfir að það ætli sér að (Forseti hringir.) verða fyrsta vetnisríki veraldar og út á það gengur þessi þingsályktunartillaga. Ég hlýt því að fagna markmiðum hennar en tel að þau séu þegar komin fram og séu að mörgu (Forseti hringir.) leyti komin til framkvæmda.