131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Endurnýjanlegir, innlendir orkugjafar í samgöngum.

52. mál
[15:28]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson endaði ræðu sína um þingsályktunartillögu um að auka notkun endurnýjanlegra innlendra orkugjafa í samgöngum með því að ræða um fiskiskipaflotann. Ég held að það sé full ástæða til að taka þau mál til umræðu en það verður ekki gert á skömmum tíma.

Mér þótti svolítið leiðinlegt í hve neikvæðum farvegi hv. þingmaður endaði. Það kemur fram í ágætri greinargerð sem fylgir tillögunni að auðvitað sé afskaplega margt gert í þessum málum á landinu m.a. í samstarfi við sveitarfélög. Sorpa framleiðir t.d. metan fyrir, að mér er sagt, fyrir allt að 2000 bíla. Hins vegar eru einungis á milli 40 og 50 bílar sem nýta sér þann orkugjafa.

Markaðurinn þarf vitanlega að taka við sér og átta sig á hvernig nýta megi þessa orkugjafa. Öll umræða, m.a. í þingsölum, hvetur fólk til að íhuga það, fólk sem hefur áhuga á þeim lífsstíl að lifa umhverfisvænu lífi og ganga sem minnst á umhverfið. Auðvitað þarf að halda því á lofti að til eru bílar sem eru mjög umhverfisvænir og að hægt væri að fjölga þeim bílum á götunum sem ganga fyrir innlendum orkugjöfum sem eru umhverfisvænir.