131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Fjárþörf Samkeppnisstofnunar.

54. mál
[15:36]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um úttekt á fjárþörf Samkeppnisstofnunar.

Hér er mikilvægt mál á ferðinni sem snertir eina af mikilvægustu eftirlitsstofnunum okkar í þjóðfélaginu og ég hafði óskað eftir því að hæstv. viðskiptaráðherra yrði viðstödd þessa umræðu. Ég veit að hún er í húsinu þannig að ég vænti þess að hún muni láta sjá sig í salnum fyrr en varir.

Þessi tillaga felur í sér að ráðist verði þegar í stað í úttekt á þörf Samkeppnisstofnunar á fjármagni og mannskap til að hún geti sinnt hlutverki sínu í samræmi við samkeppnislög og ákvæði í öðrum lögum. Það er mikilvægt að mati okkar flutningsmanna að fá fram slíka kostnaðargreiningu, unna af hlutlausum aðilum þar sem til grundvallar verði lögð reynsla síðustu 10 ára af starfi Samkeppnisstofnunar. Þessa tillögu flytja með mér hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, Björgvin G. Sigurðsson og Katrín Júlíusdóttir.

Við höfum iðulega fjallað um það í þessum virðulega sal að Samkeppnisstofnun hefur verið illa í stakk búin til að sinna hlutverki sínu sökum manneklu og fjársveltis. Samkeppnislög hafa verið í gildi í rúmlega 10 ár og á þeim áratug hafa orðið gífurlegar breytingar í atvinnulífinu og samkeppnisumhverfi í viðskiptalífinu. Allt lagaumhverfi þess hefur tekið miklum breytingum, m.a. vegna alþjóðlegrar þróunar og skuldbindinga sem Íslendingar hafa undirgengist. Með auknu frelsi í viðskiptalífinu og aukinni samkeppni hafa verkefnin sem Samkeppnisstofnun sinnir á grundvelli samkeppnislaga því margfaldast, auk þess sem mörgum nýjum verkefnum hefur verið bætt á stofnunina með öðrum lögum eins og lögum um neytendalán, fjarskiptalögum o.fl.

Ég vitna til þess í tillögu minni að forstjóri Samkeppnisstofnunar, Georg Ólafsson, hefur einmitt í ársskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 2003 kallað eftir slíkri úttekt eins og hér er lögð til og vísa ég þar til ágætrar greinar eftir hann, Til hagsbóta fyrir heildina, þar sem þetta er ítarlega rökstutt. Ég ætla ekki að tefja tímann á að vitna í ágæt orð forstjórans.

Ég hygg að flestir séu sammála um að með vaxandi umsvifum fyrirtækja, jafnt hérlendis sem erlendis, og frelsi í viðskiptum sé afar brýnt að starfsumhverfi eftirlitsstofnunar sé öflugt og sterkt svo að hún ráði við að veita markaðnum það aðhald sem nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir fákeppni og hringamyndun í viðskiptalífinu. Þar eiga almennir hagsmunir að vera í fyrirrúmi en ekki sérhagsmunir. Hagsmunir neytenda og alls almennings eiga að hafa forgang og það er auðvitað best gert með öflugri eftirlitsstofnun.

Mál Samkeppnisstofnunar hafa verið rædd aðeins í efnahags- og viðskiptanefnd á þessum vetri. Fram hefur komið að fjárþörf Samkeppnisstofnunar er mjög mikil. Hún hefur ekki getað sinnt ýmsum nauðsynlegum frumkvæðismálum og í svari hæstv. viðskiptaráðherra til mín á þessu þingi um mál frá Samkeppnisstofnun kemur fram að allt að 14 mánuðir geta liðið án þess að erindi séu tekin til efnislegrar skoðunar hjá Samkeppnisstofnun vegna manneklu og fjárskorts. Það gengur auðvitað ekki að þannig sé búið um hnútana.

Tilefni þess að ég óskaði eftir því að hæstv. ráðherra yrði viðstödd þessa umræðu var að ráðherrann hefur boðað að milljónir tuga verði settar í samkeppnismál á næstunni, eftirlit verði eflt með nýjum lögum sem eru í fæðingu — þau voru boðuð held ég síðla í janúar og sagt að þau yrðu lögð fram á næstu dögum — nýtt frumvarp til að skerpa á lögum um Samkeppnisstofnun og haft eftir hæstv. ráðherra að milljónir tuga yrðu lagðar í Samkeppnisstofnun. Ég ætla ekki að fara út í fyrirhugaðar breytingar á lögunum en ég hef miklar efasemdir um ýmislegt sem hefur komið fram í því máli, m.a. hvernig eigi að standa að því að flytja neytendaþátt stofnunarinnar þaðan og til stofnunar sem að mínu viti hefur annað verkefni, Löggildingarstofu. Hún hefur allt annað verkefni og þar væri þá á margan hátt verið að hræra saman ólíkum hlutum en ég ætla ekki að fara út í það á þessari stundu. Ég lýsi samt hér að ég hef nokkrar áhyggjur af þeim breytingum sem þarna er verið að boða, m.a. að verið sé að setja þriggja manna stjórn yfir stofnunina sem á að ákveða, ef maður skilur málin rétt, alla stefnumörkun og hvaða mál verði tekin til meðferðar. Ég held að þetta séu ekki breytingar til bóta, virðulegi forseti, ef þannig á að standa að málum. Margir halda því reyndar fram að hér hafi m.a. verið sett fram leið til að geta losnað við núverandi forstjóra stofnunarinnar sem hafi ekki verið stjórnvöldum þóknanlegur í ýmsum þeim málum sem stofnunin hefur tekið til umfjöllunar.

Það hefur komið fram hjá forstjóra stofnunarinnar og mig minnir líka hjá efnahags- og viðskiptanefnd að fjárþörf stofnunarinnar sé a.m.k. 100 millj. kr. Lausleg þarfagreining sem hefur farið fram sýnir að fjölga þurfi sérfræðingum við stofnunina verulega, þ.e. úr 11 sérfræðingum nú í um 21 sérfræðing bara á samkeppnissviði. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í tengslum við það mál sem hæstv. ráðherra hefur boðað hvort fram hafi farið einhvers konar úttekt eða greining á fjárþörf Samkeppnisstofnunar, ef svo er hvernig hún hafi þá verið unnin, hvort hún hafi verið unnin í samráði og samvinnu við Samkeppnisstofnun og hver hafi verið meginniðurstaðan á fjárþörf stofnunarinnar miðað við að hún geti með eðlilegum hætti sinnt hlutverki sínu. Þá er ég líka að tala um að stofnunin geti tekið upp mál að eigin frumkvæði, ekki bara að sá tími sé styttur sem þarf að bíða eftir úrskurðum stofnunarinnar sem hlaðast upp heldur líka að stofnunin geti með eðlilegum hætti tekið fyrir eftir þörfum frumkvæðismál sem nefndin telur mikilvægt að á verði tekið.

Ég er hérna með yfirlit á verðlagi 2003 yfir þær breytingar sem hafa orðið á fjárframlögum til stofnunarinnar samanborið við ríkislögreglustjóra og Fjármálaeftirlitið. Á hverju ári hefur verið gengið hart eftir því að stofnunin fái aukið fjármagn og það hefur borið nokkurn árangur. Frá árinu 1999 til 2003 á verðlagi 2003 hefur aukningin verið um 30% til Samkeppnisstofnunar. Þó að það sé aukning er hún miklu minni en t.d. til ríkislögreglustjóra. Sú aukning er um 85% og aukningin hjá Fjármálaeftirlitinu hefur nánast engin orðið, meira að segja dregist saman um 0,4% á þessum tíma. Sú hækkun sem hefur orðið hjá Samkeppnisstofnun hefur orðið til vegna þess að gengið hefur verið mjög hart eftir því að Samkeppnisstofnun fái aukið fjármagn. Ég minni á að við hverja fjárlagagerð á umliðnum árum hefur Samfylkingin sett fram tillögur um aukið fjármagn til Samkeppnisstofnunar.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort skoðuð hafi verið einhver fjármögnunarleið fyrir stofnunina en því hefur stundum verið slegið fram að skoða ætti hvort ekki mætti nýta sektargreiðslur sem renna til stofnunarinnar til þess að reka t.d. öfluga neytendavernd eða neytendastofnun. Ef menn á annað borð færu út í það að skipta upp Samkeppnisstofnun hvort þá væri ekki ástæða til að skoða það að sektargreiðslur sem Samkeppnisstofnun fær verði nýttar til þess að efla neytendavernd og samkeppniseftirlit.

Það er ástæða til að halda því til haga að sú þróun sem er að því er varðar sektargreiðslurnar er ákveðið áhyggjuefni, eins og þegar áfrýjunarnefnd samkeppnismála lækkaði verulega þær sektir sem Samkeppnisstofnun hafði ákveðið. Þó að hún gagnrýndi ekki það álit Samkeppnisstofnunar að ávinningur olíufélaganna væri 6,5 milljarðar og lög heimili að leggja á að hámarki 10% af ársveltu hvers félags þá lækkaði áfrýjunarnefnd samkeppnismála sektargreiðslurnar verulega og það segir auðvitað ekkert annað en að það virðist vera svo að glæpir borgi sig þegar heildarsektir samkeppnisráðs sem námu um 2,5 milljörðum eru lækkaðar í 1,5 milljarða þegar ávinningur olíufélaganna sem ekki var gagnrýnt af áfrýjunarnefndinni var 6,5 milljarðar kr. En ég vildi nefna þetta hér af því að það er áhugavert að fá fram álit ráðherrans á því hvort hugleitt hafi verið að skoða einhverjar aðrar fjármögnunarleiðir fyrir stofnunina en nú eru.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara ítarlegar yfir þetta mál. Samkeppnisstofnun hefur margsinnis, eins og ég nefndi, m.a. í síðustu ársskýrslu, bent á að starfsmannahald hjá stofnuninni hafi ekki þróast í samræmi við aukin umsvif og verkefni. Hefur stofnunin bent á að í upphafi árs 2003 hafi 80–90 samkeppnismál beðið úrlausnar og að á síðustu árum hafi kraftar samkeppnisyfirvalda farið í að sinna eftirliti og athugunum á samkeppnishindrandi samráði fyrirtækja og samkeppnishamlandi hegðun markaðsráðandi fyrirtækja. Umfangsmiklar rannsóknir eftirlitsaðila með markaðnum sem vaxið hafi verulega á umliðnum árum, hafi tekið sífellt meiri tíma hjá stofnuninni og ná gögn sem rannsaka þarf í einstökum málum yfir allt að níu ára tímabil. Þar er auðvitað skemmst að minnast rannsóknar á vátryggingamarkaðnum sem tók mörg ár og kostaði skattgreiðendur 40 millj. kr. sem eru rúmlega 20% af árstekjum stofnunarinnar og eins og menn muna var það mál að mestu fellt niður.

Virðulegi forseti.. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar og vænti þess að hæstv. ráðherra blandi sér í umræðuna og svari þeim spurningum sem ég hef beint til hennar.

Í fyrsta lagi hvenær megi vænta þess að frumvarpið um breytingu á Samkeppnisstofnun verði lagt fram. Er það rétt sem fram hefur komið að þriggja manna stjórn sem setja á yfir stofnunina eigi að vera þar allsráðandi um verkefnaval og hvaða verkefni eru tekin fyrir og rannsökuð, sem ég tel alveg fráleitt?

Síðast en ekki síst, og það snertir þetta mál: Hve miklum fjármunum verður veitt til stofnunarinnar nú þegar ný lög sjá dagsins ljós? Mér skilst á hæstv. ráðherra að sú fjárveiting sem hún hefur boðað upp á tugi milljóna króna sé sett fram í tengslum við þær breytingar sem ráðherra hefur boðað á Samkeppnisstofnun.