131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Fjárþörf Samkeppnisstofnunar.

54. mál
[15:50]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu mál sem flutt er af fjórum þingmönnum Samfylkingarinnar um Samkeppnisstofnun og að gerð skuli úttekt á fjárþörf stofnunarinnar. Er ekkert nema gott um það að segja í sjálfu sér annað en það, eins og hv. þingmaður sem mælti fyrir tillögunni veit vel, að uppi eru áform um nokkrar breytingar á samkeppnisyfirvöldum og þær breytingar leiða af sér að að sjálfsögðu þurfti að fara í úttekt á því hver fjárþörfin yrði samkvæmt þeim breytingum sem áform eru um. Ég hef látið það koma fram opinberlega að það þýði að milljónatugum verði varið til viðbótar til þessa málaflokks og fer ekkert nánar út í það hér. En að því leyti til er þessi tillaga í raun ekki í takt við tímann vegna þess að þessi áform eru orðin opinber og hv. þingmaður þekkir það mál ágætlega að ég tel. Úttektin var að sjálfsögðu unnin í samvinnu við stofnunina þar sem er þekking er á þörfinni.

Hv. þingmaður spyr hvort skoðað hafi verið að fara einhverjar sérstakar leiðir í sambandi við fjármögnun þessarar stofnunar. Það hefur komið upp sú hugmynd hvort rétt sé að reka Samkeppnisstofnun með áþekku móti og gert er með Fjármálaeftirlitið en ég tel að það sé mjög flókið mál og í raun óframkvæmanlegt þar sem samkeppnisyfirvöld koma svo víða við að þar er í raun allt samfélagið undir. Það væri því mjög flókið mál að koma því fyrir eins og er hjá Fjármálaeftirlitinu að eftirlitsskyldir aðilar reki í raun stofnunina eða leggi til það fjármagn sem þarf til rekstrarins. Ég tel að það sé alveg óvinnandi vegur hvað varðar Samkeppnisstofnun.

Ég held að ekki sé rétt formsins vegna að ég sé að ræða frumvarp sem ekki er komið fram og hv. framsögumaður spyr hvenær það komi fram. Því get ég ekki svarað þar sem það er til umfjöllunar hjá samstarfsflokknum, en ég hef þær upplýsingar að það sé mjög skammt í það. Ég vonast til þess að hægt verði að dreifa þessu máli á hv. Alþingi í næstu viku og fljótlega eftir það væri hægt að taka það til formlegrar umfjöllunar hér. Ég hef trú á því, miðað við þann mikla áhuga sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem flytja þetta mál hafa á samkeppnismálum, að það sé mjög ólíklegt annað en að þeir styðji þær breytingar sem þar eru boðaðar vegna þess að þær styrkja samkeppnisyfirvöld og það er aðalmálið.

Hv. þingmaður talaði nokkuð um fjármálin og telur að ekki hafi verið staðið nægilega vel að málum af hálfu stjórnvalda hvað varðar fjárframlög frá hv. Alþingi til stofnunarinnar og það getur verið hennar skoðun. Hins vegar vil ég láta koma fram að árið 1993 fékk Samkeppnisstofnun innan við 90 millj. á fjárlögum en á árinu 2004 voru það hátt í 160 millj. þannig að framlög hafa a.m.k. hækkað mjög mikið á þessu tímabili þó að alltaf megi deila um hvort þau hafi verið nægilega há. Miðað við það sem ég greindi frá hér í upphafi er það skoðun stjórnarflokkanna að ástæða sé til að veita aukið fjármagn til samkeppnisyfirvalda í tengslum við þær breytingar sem fara eiga fram á þeim málum.