131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Fjárþörf Samkeppnisstofnunar.

54. mál
[15:56]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég óttast að hv. þingmaður hafi bara ekki hlustað nægilega vel. Ég taldi mig hafa svarað öllum þeim spurningum sem hún bar upp. Ég sagði að það hefði farið fram úttekt á fjárþörf hinnar nýju stofnunar sem verður til með því frumvarpi sem lagt verður fram á næstu dögum og hún var unnin með stofnuninni.

Hversu mikið fjármagn þarf? Ég vil ekki greina nákvæmlega frá því hér vegna þess að málið er enn þá til meðferðar hjá stjórnarflokkunum en ég hef sagt áður opinberlega að milljónatugum verði varið til viðbótar til samkeppnisyfirvalda, verði þessi frumvörp samþykkt.

Ég svaraði því líka að ég teldi ekki að það væri rétt leið að hugsa sér að eftirlitsskyldir aðilar leggi til fjármagn til þess að reka Samkeppnisstofnun eða samkeppniseftirlit vegna þess að það má segja að allt sviðið og allt þjóðfélagið sé undir. Fjármagn hefur verið aukið verulega til þessarar stofnunar, eins og ég fór yfir áðan, en það má alltaf deila um hvort nægilega vel sé að málum staðið. En mér finnst það metnaðarfull áform sem uppi eru hjá stjórnarflokkunum í sambandi við samkeppniseftirlit og vonast til að Samfylkingin styðji þau.