131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Fjárþörf Samkeppnisstofnunar.

54. mál
[16:03]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefur ekki staðið á hæstv. ráðherra að tjá sig um þetta utan sala Alþingis og það er ekkert í þingsköpum sem varnar því að ráðherrann lýsi stefnu sinni í samkeppnismálum. Það sem spurt er um í hinu væntanlega frumvarpi eru grundvallaratriði. Hér tók forstjóri Samkeppnisstofnunar, hafandi það sjálfstæði sem hann hefur, ákvörðun um að rannsaka þau fyrirtæki sem viðskiptaráðherra vildi ekki láta gera úttekt á 1997, olíufélögin í landinu.

Nú berast fréttir af því að yfir þessa starfsemi eigi að setja þriggja manna stjórn sem eigi að ákveða hvað eigi að rannsaka og hvað eigi ekki að rannsaka og sú stjórn verði pólitískt skipuð. Sömuleiðis berast fréttir af því að þeir stjórnendur og starfsmenn Samkeppnisstofnunar sem afhjúpuðu samsæri gegn atvinnulífi og almenningi í landinu með svo glæsilegum hætti sem gert var í olíumálinu megi nú sæta því af hálfu síns ráðherra sem standa ætti við bakið á þeim, að stofnunin sem þeir vinna hjá verði lögð niður, störfin þeirra verði lögð niður, auglýst og þeir megi sæta því að sækja um sín eigin störf aftur eins og hver annar og það eigi að launa forstjóra Samkeppnisstofnunar frumkvæðið í olíumálinu með því að ráða annan mann yfir stofnuninni. Er það svo eða styður ráðherrann stjórnendur Samkeppnisstofnunar til áframhaldandi starfa í málaflokknum og mun ráðherrann tryggja að stjórnendur hinnar nýju Samkeppnisstofnunar hafi þurft sjálfstæði og ákvörðunarrétt um það hvað þeir telja að rétt sé að rannsaka eða verða það pólitískar ákvarðanir eftir að hið óheppilega olíufélagamál kom upp?