131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Fjárþörf Samkeppnisstofnunar.

54. mál
[16:17]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að hv. þingmaður ætlaði að víkja að einhverjum atriðum sem fram komu í ræðu minni í andsvarinu. Ég var ekki að fjalla um nauðsyn þess að hafa Samkeppnisstofnun eða samkeppnislög í ræðu minni heldur vék ég að tveimur aðalatriðum, annars vegar að Samkeppnisstofnun hefði ekki verið haldið í fjársvelti og hins vegar að til væru aðrar leiðir en að kalla endalaust eftir auknum fjárútlátum úr ríkissjóði til að ná fram þeim markmiðum sem menn vilja ná. En úr því að hv. þm. Jóhann Ársælsson spyr mig út í samkeppnislögin hef ég sagt það og segi enn að hvorki samkeppnislög né Samkeppnisstofnun eru forsenda þess að samkeppni geti ríkt. Mannkynið komst ágætlega af í nokkur þúsund ár líklega með samkeppni á markaði áður en samkeppnislögin komu til. Það þarf ekki að halda að eggið hafi komið á undan hænunni í þeim efnum.

Varðandi þær tölur sem ég nefndi vekur það óneitanlega athygli að á sama tíma og fjárframlög til Samkeppnisstofnunar aukast um 87% í öllu fjársveltinu fjölgar starfsmönnum samkeppnisyfirvalda um 0,1. Maður hlýtur að velta því fyrir sér í hvað allir þeir peningar fara. Ætli starfsmenn stofnunarinnar þiggi u.þ.b. helmingi hærri laun í dag en þeir gerðu árið 1998? Ég veit það ekki, það má vel vera að svo sé.

Eitt atriði vil ég nefna að lokum vegna þess sem fram kom í andsvarinu áðan. Því var haldið að vegna fjársveltis hefðu mál verið ónýtt fyrir Samkeppnisstofnun og nefnt var tryggingamálið, rannsókn á samkeppnishindrandi samstarfi á íslenskum vátryggingamarkaði. Þetta er fullkomlega rangt og ég get farið yfir það í seinna svari mínu.