131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Fjárþörf Samkeppnisstofnunar.

54. mál
[16:19]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki betur en farið hafi nokkur ár í það mál og að stundum hafi einungis einn maður unnið við verkefnið og það hafi verið stór hluti af þeim vanda sem þarna var á ferðinni.

Hv. þingmaður nefndi að hægt væri að finna aðrar leiðir og að skoða mætti 18. gr. samkeppnislaga. Hv. þingmaður stendur þá líklega fyrir því að sú grein verði skoðuð. Ég er ekki viss um að ég sé neitt á móti því að þeim reglum verði breytt. Það er að mínu viti eitthvað sem má vel fara yfir og kannski er hægt að minnka verkefni Samkeppnisstofnunar með þeim hætti að einhverju leyti.

Mér fannst rök hv. þingmanns svolítið sérkennileg að við hefðum ekki þurft á samkeppnislögum að halda vegna þess að hér hefðu engin slík lög verið frá því að land byggðist, ekki fyrr en líklega á síðustu öld. Það skyldi ekki vera að það sé æðimargt í lagasetningunni sem gildir í dag sem ekki var til fyrr en á þeirri öld. Það væri þá hægt að grisja lögin sem hér gilda mikið og kannski nóg að skrifa Grágás upp aftur.