131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Fjárþörf Samkeppnisstofnunar.

54. mál
[16:24]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er samt sem áður þannig að frá árinu 1998 til ársins 2004 fóru fjárframlög til Samkeppnisstofnunar úr 85 eða 86 millj. upp í 157 millj. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2005 fara þau upp í 177 millj. Þetta er því tæplega 100% aukning á fjárframlögum.

Þó skal taka fram að það er sannleikskorn í því hjá hv. þingmanni að neysluvísitala hækkaði á þessu árabili um 29%, en það þýðir ekki að fjárframlögin hafi einungis aukist um 30%.

Kjarni máls míns er þessi: Því er haldið fram í því þingmáli sem við fjöllum um, og það hefur verið gert ekki bara mánuðum eða missirum saman heldur árum saman, að samkeppnisyfirvöld hafi verið í fjársvelti. Ég hlýt að spyrja: Getur það verið þegar þessar tölur liggja fyrir? Það hefur orðið tuga prósenta hækkun á fjárframlögum til stofnunarinnar. Hvað þarf að gera til að stjórnarandstæðingar fallist á að tiltekin stofnun sé ekki í fjársvelti?

Varðandi starfsmenn stofnunarinnar neita ég því að ég sé eitthvað að hnýta í þá. Ég er bara að benda á að það sætir furðu að á umræddu tímabili hefur orðið tugprósenta aukning á fjárframlögum til stofnunarinnar en starfsmannafjöldinn hefur ekkert aukist. Við hljótum að skýra aukninguna með því að laun hafi hækkað. Eitthvað hlýtur að skýra aukninguna. (Gripið fram í.) Þetta vekur óneitanlega athygli.