131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kvennahreyfingin á Íslandi.

56. mál
[17:03]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svörin en ég held að hv. flutningsmenn séu kannski fullbláeygir um b-liðinn því að jafnvel í hinu besta ráðuneyti af öllum ráðuneytum tel ég að of náið samneyti grasrótarinnar við ráðuneytin geti hugsanlega verið grasrótinni varasamt. Ég veit ekki hvort hægt er að koma á beinum stjórnsýslulegum tengslum af slíku tagi þarna á milli. Kannski ætti að orða þetta svo eða a.m.k. koma því þannig í verk að jafnréttisfulltrúarnir verði með einhverjum hætti styrktir og það verði séð til þess að þeir séu t.d. í fullu starfi og að þeir hafi einhverjar skýrsluskyldur út á við, þannig að hinir pólitísku ráðamenn í ráðuneytinu verði að taka tillit til þeirra og vinna með þeim. Í stað þess, eins og hv. flutningsmaður sagði, að þeirri stöðu eða þeim titli sé svona splæst á menn sem eru í raun og veru — menn í skilningnum karlar eða konur — að gera eitthvað annað.

Með sjóðinn á fjárlögum þá er það bara viðfangsefni sem gaman væri að takast á við. Auðvitað mætti líka hugsa sér að sá sjóður yrði styrktur með annars konar framlögum eða hefði einhverja tekjustofna þó að ég viti að markaðir tekjustofnar eru ekki í tísku á okkar áratugum.