131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Greinargerð Seðlabanka um efnahagsmál.

[15:02]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég kýs að beina máli mínu til hæstv. utanríkisráðherra í fjarveru hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra hefur því miður verið fjarverandi síðustu tvo mánudaga, þ.e. í dag og hinn síðasta, sem við höfum haft óundirbúnar fyrirspurnir og því ekki verið hægt að beina til hans spurningum.

Fyrir helgi tilkynnti Seðlabankinn ákvörðun sína um að hækka stýrivexti frá og með morgundeginum um 0,5 prósentustig og verða þeir þá 8,75%. Seðlabankastjóri sagði í tilkynningu að hann drægi þó mjög í efa að þessi vaxtahækkun mundi duga til og að hann ætti eins von á því að bankinn þyrfti að hækka stýrivexti enn frekar fram eftir árinu.

Landsbankinn gerir ráð fyrir því í spá sinni að stýrivextir muni halda áfram að hækka og verði orðnir 10% í sumar. Hvorki Seðlabanki, Landsbanki né KB-banki telja að séð sé fyrir endann á hækkun fasteignaverðs en það er, eins og fram kemur í greinargerð Seðlabankans til ríkisstjórnarinnar, ásamt með stóriðjuframkvæmdunum talin meginástæða þess að verðlag hefur nú farið upp fyrir þolmörk Seðlabankans.

Svo bregður hins vegar við að hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson virðist ekki vera sammála mati Seðlabankans á þörfinni fyrir frekari vaxtahækkanir. Hann segir í viðtali við Morgunblaðið á sunnudaginn að hann telji að stýrivextir Seðlabankans séu orðnir það háir að frekari vaxtahækkana ætti ekki að vera þörf.

Ég spyr því hæstv. utanríkisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar: Er uppi ágreiningur milli ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans um mat á stöðu efnahagsmála og beitingu stjórntækja? Í öðru lagi spyr ég: Hefur ríkisstjórnin tekið greinargerð Seðlabankans fyrir og er að vænta tilkynninga eða yfirlýsinga frá henni í framhaldi af því?