131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Greinargerð Seðlabanka um efnahagsmál.

[15:07]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Það var ekki meining mín að gera neitt lítið úr sjónarmiðum Seðlabankans að neinu leyti. Ég held að ég hafi ekki gert það. Ég vek hins vegar athygli á því hvað það varðar sem hv. þingmaður nefndi að strax og þessar ákvarðanir voru teknar varðandi stóriðjuáformin fyrir austan var því auðvitað lýst yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar og ekkert farið í grafgötur með það að þessar miklu framkvæmdir sem svo eru hagfelldar fyrir íslenskan þjóðarbúskap eins og þær eru mundu auðvitað setja heilmikla pressu á íslenskt efnahagslíf og þess vegna þyrftu menn að huga að öðrum þáttum jafnframt handa meðan á þessu stæði.

Það var aldrei dregið neitt undan með að það væri. Hins vegar væri ávinningurinn af framkvæmdunum svo mikill að það væri þess virði, jafnvel þó að auðvitað yrði nokkur efnahagsleg spenna á meðan þessar miklu framkvæmdir stæðu sem hæst. Það var enginn sem dró fjöður yfir það, hvorki hæstv. forsætisráðherra, ég né hæstv. iðnaðarráðherra.