131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Greinargerð Seðlabanka um efnahagsmál.

[15:08]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að Seðlabankinn fer einnig sérstaklega yfir það í greiningu sinni á þessu ástandi hvernig framkvæmdirnar hafa þjappast saman og verða t.d. meiri á þessu ári en upphaflega var gert ráð fyrir. Þær eiga stóran hluta í því verðbólguástandi sem við upplifum í sterku raungengi krónunnar. Mælingar á verðlagi, sá grunnur sem vísitalan byggir á og það með hvaða hætti fasteignamarkaðurinn kemur þar inn í er svo algerlega sjálfstætt mál. Menn geta tekið til skoðunar hvort þeir vilji t.d. frekar miða þar við húsaleigu og þróun hennar en sjálft fasteignaverðið. Það breytir ekki því að meginskýringanna er að leita í þessu ástandi og það er greinileg fælni á ferðinni, sérstaklega hjá talsmönnum Framsóknarflokksins, þegar kemur að því að horfast í augu við og viðurkenna þennan vanda. Auðvitað. Við skiljum öll af hvaða ástæðum það er sem ekki má viðurkenna og horfast í augu við það sem er raunverulega á ferðinni.

Ég held (Forseti hringir.) að hæstv. ríkisstjórn þurfi að huga alvarlega (Forseti hringir.) að þessum málum á næstu vikum og mánuðum. Andvaraleysi dugar ekki.