131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Hækkun hámarksbóta almannatrygginga.

[15:27]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra vegna þess að fyrir nokkrum dögum kom ársskýrsla um framkvæmd sjúklingatryggingar undanfarin fjögur ár fram í ráðuneytinu, en í janúar 2001 tóku gildi lög um sjúklingatryggingu og markmiðið með þeim lögum var að auka bótarétt sjúklinga sem verða fyrir heilsutjóni vegna áfalla í tengslum við læknismeðferð, t.d. vegna læknamistaka, og gera þeim auðveldara fyrir að ná rétti sínum.

Tryggingin nær til alls heilbrigðiskerfisins en í ársskýrslunni frá því í febrúar kemur fram að þeir sem verða fyrir miklu tjóni fá það ekki að fullu bætt á meðan þeir sem verða fyrir litlu tjóni fá það bætt að fullu. Þetta er vegna þess að bótahámark sjúklingatryggingarinnar í lögum voru 5,7 millj. á síðasta ári, 2004, sem Tryggingastofnun telur mjög óheppilegt og leggur til á heimasíðu sinni að það verði hækkað hið fyrsta. Ég tek undir það, mér finnst þetta mjög óréttlátt.

Í skýrslunni kemur einnig fram að þrír af þeim 25 einstaklingum sem hafa fengið örorkumat í kjölfar sjúklingatryggingarinnar hafa ekki fengið tjón sitt að fullu bætt. Reyndar eru þeir fjórir vegna þess að einn var metinn á örorku á þessu ári. Þeir hafa sem sagt orðið fyrir verulegu tjóni og ekki fengið það bætt að fullu eins og þeir sem verða fyrir minna tjóni og verða af töluverðum bótum.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra:

Hver er afstaða ráðherrans til þessa og mun hann beita sér fyrir því að hækkun verði á hámarksbótunum þannig að þeir sem verða fyrir miklu tjóni fái það bætt eins og aðrir sem verða fyrir heilsutjóni á heilbrigðisstofnunum ríkisins?