131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[15:42]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þingmenn sem þurfa að bregða sér frá að gera það hljóðlega og tafarlaust.)

Herra forseti. Ég hefði kosið heldur að hæstv. forseti bannaði mönnum að fara úr salnum á meðan rædd er svo merkileg tillaga sem varðar afdrif laxa í sjó.

Ég hef kvatt mér hljóðs til þess að mæla fyrir þingsályktunartillögu okkar nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar sem varðar eina af þekktustu auðlindum Íslendinga, íslenska laxastofninn. Það má segja að íslenskir ferskvatnsfiskar séu óumdeilanlega í hópi merkilegustu auðlinda okkar, bæði frá sjónarhóli erfða, náttúru, en líka þegar horft er til þess að þessar auðlindir standa víða undir byggð þar sem hún hefur verið að veikjast.

Við höfum lagt til að hið opinbera ráðist í rannsóknir á afdrifum laxa í sjó. Ástæðan er sú að markvissar rannsóknir á nokkrum lykilám á Íslandi hafa sýnt það að hafið er einn stærsti orsakavaldurinn í stofnsveiflum á laxi. Rannsóknir hafa sýnt að endurheimtur náttúrulegra laxaseiða sem eru að ganga út úr ám geta verið á bilinu 2–22%. Ástæðan, teljum við, liggur fyrst og fremst í því að eitthvað gerist í hafinu sem veldur því að afföllin meðan á sjávarvistinni stendur eru ákaflega mikil.

Síðustu 15 árin hefur laxgengd almennt verið í lægð hér við land. Á sama tíma hefur hlutfall stórlaxa lækkað, þ.e. laxa sem eru með að baki tveggja ára dvöl eða meira í hafi. Þetta bendir til aukinna affalla á öðru ári í sjó. Á þessu tímabili hafa menn líka gert stórfelldar tilraunir með sleppingar á laxaseiðum, svokallaðri hafbeit sem ekki gekk, fyrst og fremst vegna þess að það er ljóst að í hafinu hafa komið upp einhvers konar skilyrði sem gera það að verkum að það er hægt að tengja þau við aukin afföll laxa í hafi.

Hér á landi hefur á undaförnum árum og áratugum verið unnið ákaflega gott starf við að kanna þá þætti sem hafa áhrif á framleiðslu og afdrif laxaseiða í fersku vatni. Þessar rannsóknir hafa hins vegar ekki farið fram í jafnríkum mæli að því er varðar dvöl laxa í hafi. Nú hafa Íslendingar með tækni sem þeir hafa þróað, rannsóknum sem þeir hafa staðið fyrir, skipað sér í fremstu röð að því er varðar möguleika á því að fylgjast með fiskum sem ganga úr íslenskum ám út í hafið og til baka. Til þessa hafa menn t.d. ekki vitað hvar búsvæði og beitarsvæði íslenskra laxa eru í hafinu. Menn hafa leitt getum að því að sneiðst hafi um þessi beitarsvæði og það valdi því að afföllin verði meiri en áður. Þetta hefur ekki verið hægt að rannsaka. Við höfum ekki búið yfir tækni sem hefur gert okkur kleift að fylgjast með löxum ganga úr ánum til hafs og aftur til baka. Við höfum hins vegar stopular upplýsingar, m.a. frá tímum kalda stríðsins þegar kafbátar þvældust langt fyrir norðan Ísland á einhverjum svæðum. Mjög langt fyrir norðan þar sem við höfum aldrei sett niður nokkurt tæki eða skip til að rannsaka sigldi kafbátur á sínum tíma í gegnum miklar torfur Atlantshafslaxa sem þar voru á beit í hafinu.

Við höfum ekki náð að vita hvar þessi svæði eru. Núna hins vegar hefur fyrirtækið Stjörnuoddi, íslenskt fyrirtæki, þróað merkilegt tæki sem hægt er að festa við fiska til að fylgjast með ferðum þeirra. Það er hægt að staðsetja ferðirnar nákvæmlega, bæði hvert þeir fara og hversu djúpt þeir fara, við hvaða seltu þeir vilja einkum vera og hvaða hitastig. Þar með er hægt að leiða líkum að því hvaða fæðu þeir leggja sér til munns. Þetta breytir öllum aðstæðum okkar til að vinna að rannsóknum af þessu tagi.

Þessi íslensku rannsóknartæki hafa núna í vaxandi mæli verið tekin upp af öðrum þjóðum. Íslenskur vísindamaður, Jóhannes Sturlaugsson, hefur staðið fyrir alveg geysilega merkum brautryðjendarannsóknum með þessi tæki á íslenskum laxi, íslenskum sjóbirtingi og líka urriða í Þingvallavatni. Þessar upplýsingar hafa gefið nýja mynd af hegðun og lífsferlum þessara merkilegu tegunda.

Þess vegna er þessi tillaga lögð fram, herra forseti. Við teljum að nú hafi orðið ákveðin kaflaskil að því er tækni áhrærir sem geri það að verkum að hægt sé að rannsaka til nokkurrar hlítar hvernig laxinn hagar sér í hafinu, hvert hann heldur og hvað verður um hann. Það er nauðsynlegt að við reynum að verða okkur úti um þetta sem vísindaleg gögn.

Þetta tengist líka öðru sem hefur verið að fara af stað á Íslandi á síðustu árum, eldi á laxi. Töluvert miklar deilur hafa staðið um það hvaða áhrif fiskeldi og laxeldi kynnu að hafa á náttúrulega villta laxastofna. Sérfræðinga greinir á um þetta. Sumir halda því fram með nokkrum rökum að erfðablöndun geti leitt til minnkandi æxlunarþrótts sem aftur leiði til þess að afkoma stofna sem blandast aðkomugenum verði miklu verri. Á móti benda ýmsir aðrir vísindamenn á rök sem hníga gegn því. Þeir sem telja að blöndun sé óæskileg benda m.a. á að hlutfall þeirra laxa sem við flokkum sem stórlaxa, þeirra sem hafa dvalið a.m.k. tvö ár í hafi, hafi minnkað verulega á síðustu árum. Menn eins og Vigfús Jóhannesson fiskifræðingur og einn af helstu talsmönnum eldis hér á landi hafa hins vegar bent á að þetta kunni að stafa af því að það er aukið veiðiálag fyrri hluta veiðitímans núna miðað við það sem áður var. Við sem höfum aðeins kynnt okkur lífsferil laxins vitum að stórlaxarnir ganga alltaf fyrstir og þeir ganga efst upp í árnar, hasla sér búsvæði þar fyrstir laxa. Ef veiðiálagið eykst fyrri hluta veiðitímabilsins er líklegt að hlutfall stórlaxa aukist í veiðinni. Þar með má líka segja að veiðin fleyti með vissum hætti stórlaxagenum ofan af stofninum. Þetta kann að vera ein ástæðan fyrir því að ekki er um að ræða jafnmiklar göngur stórlaxa í íslenskar ár og áður.

Þess vegna höfum við, þingmenn sem flytjum þessa tillögu, lagt hana fram til að fela hæstv. landbúnaðarráðherra sem umboðsmanni ríkisstjórnarinnar í málinu að beita sér fyrir rannsóknum á sjávarvist laxanna. Markmið þessara rannsókna á að vera að kanna þau tengsl sem kunna að vera, og við þekkjum ekki enn til hlítar, á milli umhverfisaðstæðna í hafinu og vaxtar, affalla og endurheimtna. Við leggjum áherslu á að þessi sérstaka íslenska mælitækni sem hefur verið þróuð af Stjörnuodda, og beitt við laxarannsóknir af Jóhannesi Sturlaugssyni sem ég nefndi áðan, verði notuð við þessar rannsóknir. Það á að nota hana til að kortleggja ferðir fullorðinna laxa í hafi með það fyrir augum að finna hvar þeir halda sig og á hvaða stigi sjávarvistarinnar afföllin verða fyrst og fremst í hafinu. Uppi eru kenningar um það að þær rannsóknir sem þurfi að ráðast í séu m.a. fjölstofnarannsóknir til að kanna með hvaða hætti laxinn tengist fæðunámi og lífsferli annarra dýra.

Ýmsir hafa t.d. haldið því fram að minnkandi selaveiði hafi leitt til aukins afráns sela á sjógönguseiðum og hugsanlega þegar þau eru skammt komin út úr ánni. Það er eitt af því sem þarf að kanna. Samhliða því að kanna þessar ástæður fyrir vaxandi afföllum þarf líka að greina mögulegar leiðir til að draga úr þeim. Við höfum lagt á það sérstaka áherslu að þessum rannsóknum verði hagað þannig að líka sé hægt að nota þær til að leggja mat á afdrif fullorðinna síðkynþroska laxa sem kunna að sleppa úr kvíaeldi hér við land. Því er haldið fram að strokulaxar sem geti blandast náttúrulegum stofnum kunni að draga úr æxlunarþrótti þeirra en það er nauðsynlegt að sjá hvort þeir taki í rauninni virkan þátt í æxluninni eða ekki. Það er hægt með þessum rannsóknum.

Það þarf ekki að undirstrika það að íslenskir laxastofnar eru ákaflega verðmæt auðlind. Það er áætlað að veltan sem tengist stangaveiði á laxi sé á hverju ári fast að tveimur milljörðum króna. Þar af er talið að bara sala veiðileyfa kunni að vera 600 millj. eða meira. Þess vegna er alveg ljóst að þeir sem hafa áhuga á að treysta þær stoðir sem standa undir ýmsum strjálbýlum byggðarlögum hafa væntanlega áhuga á því að treysta stoðir þessara náttúrulegu stofna í atvinnuskyni þótt ekki sé undirstrikað frekar mikilvægi þess að halda þeim til haga vegna þeirra náttúrulegu verðmæta sem í þeim felast.

Hér á landi hefur búsvæði laxins átt undir högg að sækja fyrir ásókn mannsins. Við miðkjarna höfuðborgarinnar eru litlar en fallegar ár, Elliðaárnar, sem á sínum tíma voru frægar úti um alla Evrópu sökum gríðarlegrar laxgengdar sem í þeim var. Stofnarnir þar hafa átt undir högg að sækja og menn hafa ekki alveg getað skilið til hlítar hvað veldur þessari dvínandi laxgengd í Elliðaárnar en klárt er að stærstan hluta þeirra orsaka má finna í því að raforkuframleiðsla hefur leitt til þess að mjög hefur sneyðst um uppvaxtarsvæði seiðanna í ánum og það hlýtur að skipta verulega miklu máli. Ég tel, herra forseti, að það sé skylda þeirra sem fara með stjórn Reykjavíkurborgar að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að byggja aftur upp þessa náttúruperlu sem laxastofninn í Elliðaánum var. Ef það þýðir að það þarf að hætta raforkuframleiðslu úr Elliðaánum á að sjálfsögðu að gera það.

Aðra smáá með alveg sérstakan laxastofn er líka að finna innan borgarmarkanna. Það er Korpa sem rennur á vestari og nyrðri mörkum borgarinnar, smáá sem hefur árþúsundum saman fóstrað einstakan laxastofn sem er ákaflega smávaxinn og hefur lagað sig mjög að rennsli þessarar merkilegu smáár. Sá stofn er líka í hættu, og það verður stjórnvöldum Reykjavíkurborgar til ævarandi hneisu ef þau grípa ekki í taumana nægilega snemma og með nægilega virkum hætti til að koma í veg fyrir að þessir stofnar eyðist með öllu. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að ég tel að þetta sé eitt af þeim sláandi dæmum sem við höfum fyrir okkur um ásælni mannsins gagnvart búsvæðum þessarar tegundar sem við erum hér að ræða og sömuleiðis vegna þess að það er auðvelt að snúa þeirri þróun til baka. Að því er Elliðaárnar varðar megum við ekki láta það blekkja okkur að laxveiði hefur að sönnu aukist þar á síðustu árum en það er fyrst og fremst vegna þess að menn hafa þar hafið sleppingar á seiðum sem ekki voru áður. Hinn náttúrulegi stofn stendur hins vegar fráleitt jafnstyrkum fótum og áður.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína lengri en ég tel að hér sé um að ræða ákaflega mikilvægt skref til að grafast fyrir um orsakir þeirra hnignunar sem hefur átt sér stað varðandi íslenska laxastofninn. Hið gleðilega við þróunina er auðvitað að fram hafa komið menn og konur sem hafa stappað niður fæti og reynt að berjast gegn þessari þróun. Þar vil ég sérstaklega nefna Íslendinginn Orra Vigfússon sem hefur ásamt félögum sínum í NASCO staðið fyrir stórkostlegum uppkaupum á veiðirétti í hafi. Því miður berast jafnframt þau tíðindi til okkar, jafnvel þessa allra síðustu daga á Íslandi þar sem menn höfðu þó keypt upp veiðirétt í ám, að þar sé aftur verið að falla í sama farið og heimila netaveiðar í laxveiðiám. Þetta er eitt af því sem við þurfum að vinna gegn og stjórnvöld þurfa að koma að í ríkari mæli en áður. Það er ekki hægt, finnst mér, eins og staðan er orðin að láta það ganga fyrir sig ágreiningslaust að menn veiði lax í net í ám en hitt er auðvitað alveg ljóst að ef taka á þann rétt af þeim sem samkvæmt hefð hafa nytjað slík hlunnindi verður hið opinbera að koma að því máli.

Þessi tillaga, herra forseti, lýtur að því að kanna hvað það er sem veldur afföllum laxa í hafinu og veldur því þar með að stórlöxum fækkar. Við flutningsmennirnir teljum að nú sé komin sérstök mælitækni sem geri okkur kleift að ráðast í þessar rannsóknir. Ég vona að þingheimur fallist á þessa tillögu og samþykki hana eftir að hún hefur farið sinn eðlilega gang um hv. landbúnaðarnefnd.