131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[15:57]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni Össuri Skarphéðinssyni fyrir að hafa komið fram með þessa þingsályktunartillögu. Við skoðun hennar vakna hins vegar upp nokkrar spurningar. Ég ætla ekki að segja að ég sé á móti henni en hins vegar þykir mér hún hálfloðin.

Mig langar til að spyrja hv. flutningsmann hvort hann eða flutningsmenn hafi hugsað um hvernig þessar rannsóknir eigi að fara fram, hverjir eigi að sjá um þær, hvaða stofnanir. Hér erum við að tala um mörkin á milli ferskvatns og sjávar. Erum við að ræða um Hafrannsóknastofnun? Erum við að ræða um aðkomu Veiðimálastofnunar? Erum við að ræða um aðkomu sjálfstætt starfandi vísindamanna, Háskóla Íslands o.s.frv.?

Svo leikur mér líka hugur á að vita hversu háum fjárhæðum flutningsmenn gætu hugsað sér að verja til þessara rannsókna. Mér sýnist á þeim lýsingum sem hér eru að þetta gætu orðið töluvert kostnaðarmiklar rannsóknir. Það þarf m.a. að framkvæma rannsóknir á hafi úti og fara út í að merkja fisk með mjög dýrum mælimerkjum. Er það ríkið sem á að standa straum af kostnaði við þessar rannsóknir eða sjá flutningsmenn fyrir sér að einkaaðilar, jafnvel eigendur veiðiréttar í laxveiðiám, muni að einhverju leyti standa straum af kostnaði við framkvæmd þessara rannsókna? Ég segi enn og aftur að ég tel að þær séu mjög dýrar og flóknar í framkvæmd.