131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[15:59]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Spurning hv. þingmanns var tvíþætt. Í fyrsta lagi: Hverjir eiga að sjá um rannsóknirnar? Í öðru lagi: Hvað er líklegt að þær kosti?

Að því er varðar fyrri spurninguna liggur alveg ljóst fyrir að ýmsir aðilar gætu tekið þetta að sér. Ef ég mætti draga upp óskalista fyrir hv. þingmanni tel ég að ekki væri úr vegi að forgöngu um slíkar rannsóknir hefðu sjálfstætt starfandi rannsóknarmenn sem eru til í dag. Í dag hafa sjálfstætt starfandi rannsóknarmenn utan þessara hefðbundnu stofnana rutt brautina fyrir þessa tegund rannsókna. Ég nefndi líffræðing áðan. Hann starfar hjá engri þeirra stofnana sem hv. þingmaður nefndi. Hann býr alveg klárlega yfir mestri reynslu á þessu sviði enda er hann eftirsóttur til samstarfs við ýmsar stofnanir, m.a. í því landi sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hefur bæði búið og starfað í.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ef þingið bæri gæfu til að samþykkja þessa tillögu yrði það ríkisstjórnin sem mundi hafa forustu um að setja saman rannsóknarteymi. Ég tel mestu varða að menn hefji rannsóknirnar og stígi fyrstu skrefin. Ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni um að þetta þurfi að vera svo gríðarlega viðamikið. Ég geri mér grein fyrir því að til að sem best yrði að þessu staðið þyrfti m.a. að hafa aðgang einhverja daga að skipi til að taka laxa og merkja í sjó en ég geri mér vonir um að með nútímamælitækni, gervihnöttum og öðru slíku og þróun þessara tækja sem geta fylgst með fiski á meira dýpi en áður, meira dýpi en okkur hefur t.d. tekist til þessa í Þingvallavatni, eigi þetta að vera mögulegt. Ég hef hins vegar svolitla reynslu af þessari mælitækni vegna þess að ég hef sem jaðarmaður tekið þátt í svona rannsóknum og ég held ekki að rannsóknirnar verði jafndýrar og hv. þingmaður telur.