131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[16:03]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vænti þess að tæknin, sem er undirstaða þessarar nýju rannsóknargetu, muni innan skamms leiða til þess að ekki þurfi endurheimtna við til þess að ná upplýsingunum sem mælitækin gefa frá sér. Ég vænti þess að ekki sé langt í það að sú stund renni upp að tækin geti sent frá sér upplýsingarnar sem þau hafa numið á tilteknum tímaskeiðum meðan á rannsókninni stendur þannig að ekki þurfi bókstaflega að endurheimta tækið eins og menn þurfa að gera í dag.

Sömuleiðis er tæknin að verða þannig úr garði gerð að hægt er að fylgjast með ferðum fiska sem eru með þessi skráningartæki áfest á meira dýpi en áður. Til skamms tíma var ekki hægt að fara undir ákveðið dýpi. Nú er það að breytast og það skiptir töluvert miklu máli.

Hverjir eiga að standa að slíkum rannsóknum og hvernig á að gera það? Það er þannig — af því að mitt stopula minni segir mér að hv. þingmaður hafi áðan m.a. minnst á Noreg — að norskir vísindamenn og stofnanir hafa sóst eftir samstarfi við Íslendinga um afdrif laxa í sjó einmitt á þessu tiltekna sviði. Það hefur verið sóst eftir þeirri íslensku rannsóknargetu sem hér hefur þróast á allra síðustu árum. Umsóknir t.d. Norðmanna, sem tengjast slíkum rannsóknum, í alþjóðlega sjóði hafa byggst á samstarfi við sjálfstætt starfandi íslenska rannsóknarmenn. Ég óttast því ekki ef íslenska ríkisstjórnin ákvæði að fara út í þetta að það skorti rannsóknarsamstarf. Vitaskuld yrði það dýrt ef menn ætluðu í þetta af mjög miklu kappi en þetta eru hins vegar grunnrannsóknir og ég tel ekkert að því að íslenska ríkið komi að þeim.