131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[16:25]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú hafa þau stóru tíðindi gerst að við hv. þingmaður erum sammála. Það snýr að því að fjarlægja Steingrímsstöð og byggja upp urriðastofninn. (Gripið fram í.) Ég er stuðningsmaður þess. Það væri göfugt af Landsvirkjun að gefa það til málsins í stað þess að þvælast fyrir mikilvægum framtíðarmálum sem snúa að hinni miklu tómstundaiðju Íslendinga, að rækta fisk svo hægt sé að veiða hann.

Hv. þingmaður spurði hvað frumvarpinu liði sem stöðvað var. Ég verð að skýra frá því hreint og klárt að ég hef hikað með málið á þessu stigi og hef verið að skoða það innan frá hvort menn gætu náð samstöðu um það hér og er að meta það í ráðuneyti mínu hvort ég eigi að keyra það inn á þetta þing eða koma með löggjöfina í heild sinni strax á haustþingi.