131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[16:28]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er langt frá því að sá sem hér stendur sé neitt hörundssár. Ég vildi bara skýra klárt og kvitt frá því að mér fannst mjög mikilvægt að NASCO og það leiðtogastarf sem þar er unnið af Íslands hálfu væri landbúnaðarins megin, atvinnuvegarins megin. Það var því samkomulag á milli mín og þáverandi utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, að færa þetta yfir. Síðan skýrði ég frá því að Guðmundur B. Helgason ráðuneytisstjóri hefði farið með forustu í sendinefnd Íslands.

Til að gleðja hv. þingmann sagði ég frá þeirri miklu ráðstefnu sem haldin var hér í fyrra og hann hefur áreiðanlega komist í kast við eða vitað um, þannig að það var ekkert til þess að hryggjast yfir.

Svo vildi ég skýra frá því hvað væri í gangi á þessum sviðum, bæði á vegum landbúnaðarráðuneytisins og ekki síður Veiðimálastofnunar sem er að vinna stórhuga verkefni og fara í miklar sleppingar til að kanna þetta mikla verkefni sem tillagan gengur út á, að rannsaka örlög laxastofnanna í sjónum og er auðvitað stórmál sem við þurfum að vita meira um.

Eins og hv. þingmaður nefndi er þetta svo misjafnt, getur verið frá 2% og upp í 22% endurheimt. Það er því mjög mikilvægt fyrir okkur að vita um örlögin og auðvitað þurfum við að tryggja að fiskurinn sé ekki veiddur í stórtæk skip einhvers staðar í hafinu, heldur skapa samstöðu um að hann hafi frið. Vísindin sem efla alla dáð þurfa að komast að niðurstöðu um hvað veldur hinum mikla mismun og hvernig við getum bætt endurheimtunina þannig að við getum eflt þessa miklu auðlind sem við erum öll sammála um að laxinn og ferskvatnsstofnar okkar eru.