131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[16:34]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég tel að hér ræðum við afar þarft og merkilegt mál um að reyna að festa niður meiri þekkingu á því hvernig laxinn lifir í hafinu, hvar hann lifir og hvaða afföll verða hugsanlega af þeim fiski og reyna að átta okkur á lífríkinu að því leyti.

Fyrir um 20 árum lagði ég til á fiskiþingi að farið yrði í tilraunaveiðar á laxi í sjó, m.a. til að afla upplýsinga um útbreiðslu hans og á hverju hann lifði. Jafnframt mundu notaðar merkingar þannig að menn gætu séð hvert sá lax skilaði sér. Ég hafði enga sérstaka tillögu um hvar slíkar veiðar ættu að fara fram en vissulega vitum við um nokkur veiðisvæði, t.d. svæði sem Færeyingar stunduðu veiðar á, norðan Færeyja og djúpt norðaustur af Íslandi. Miðað við þau svæði sem þar eru þekkt varðandi fæðuöflun og vöxt laxins í hafinu er ekki ólíklegt að svipuð svæði séu norður af Íslandi á mótum hlýrra og kaldra hafstrauma. Reyndar er það mjög líklegt.

Tillaga mín fékk lítinn hljómgrunn þegar ég flutti hana. Ég held að öll laxamafían hafi farið á hvolf. Ég verð kannski að biðjast afsökunar á að orða það þannig en þeir menn sem stunduðu þá sportveiði í íslenskum ám, og gera vonandi einhverjir enn, töldu að þar færi togaraskipstjóri sem vildi stunda sérstaka útgerð til veiða á laxfiskum. Þetta fór afar illa í þá. Ég gerði náttúrlega grín að þeim og hélt því fram að þeir sem mesta ánægju hefðu af laxveiði á Íslandi, því ég stunda hana ekki sjálfur, vildu ekki vita nokkurn skapaðan hlut um laxinn, hvað þá um hvar hann lifði, hvernig hann skilaði sér eða á hverju hann lifði eða hverjir væru helstu óvinir hans í hafinu. Þessi tillaga var kolfelld á fiskiþingi þar sem allir laxveiðimenn á Íslandi lögðust á eitt með að hringja í þingfulltrúa og töldu þetta hið versta mál. Síðan hef ég haft nokkrar efasemdir um það að þeir sem stunda sportveiði á landinu vilji vita nákvæmlega hvar fiskarnir vaxa upp og hvernig þeir lifa.

Ég held hins vegar að á síðustu 20 árum hafi orðið markverð breyting að því leyti að ég held að menn vilji vita þetta. Auðvitað hefur verið unnið að því að sleppa laxaseiðum í margar ár. Því miður virðast þar geysileg afföll og það sem í hafið fer ekki skila sér vel til baka þótt oft sé sleppt seiðum sem eru tilbúin til sjógöngu.

Ég tel að sú tillaga sem hér er flutt og hv. flutningsmaður Össur Skarphéðinsson gerði grein fyrir sé afar merk og þörf. Ég vona sannarlega að menn leggist ekki gegn því að fram fari tilraunaveiðar á ákveðnum svæðum í hafinu til að átta sig á því hvar laxinn heldur sig og á hverju hann lifir.

Ég held reyndar að betri nýting á fjármunum næðist með því að veiða lax í úthafinu, merkja hann þar og sleppa honum heldur en að merkja mikinn fjölda af niðurgönguseiðum, miðað við þær endurheimtur sem koma. Það væri a.m.k. ákaflega fróðlegt að merkja úr veiði lax sem menn teldu það sprækan að hægt væri að sleppa honum aftur og bera síðan saman við laxinn sem merktur er í hafinu, sem kannski væri orðinn eins eða tveggja ára, og hins vegar merkt seiði. Ég gæti vel trúað að meiri vitneskja fengist með merkingum í hafi en á seiðunum.

Búsvæðin eru ekki alveg þekkt eins og ég gat um áður þótt vissulega sé það vitað um laxinn að hann leitar í ákveðið hitastig og leitar mikið norður á bóginn sér til viðgangs og vaxtar.

Ég tel að sú tillaga sem hér er flutt sé góðra gjalda verð og veki upp þarfa umræðu um það hvernig öðlast megi vitneskju um hvar vex laxinn upp, hvaða fæðu hann tekur og hverjir eru helstu afræningjar hans. Ég hef reyndar ákveðna skoðun á því hverjir séu afræningjar laxins norður af landinu. Ég hygg að það séu selir, útselur, vöðuselur og blöðruselur sem eru aðalafræningjar laxins. Það er afar erfitt að finna út hvað þessar selategundir leggja sér til munns og á hverju þær lifa. Þó koma einstöku sinnum upp þær aðstæður að það má sjá, t.d. að sumarlagi í algjöru blankalogni. Þá er stundum hægt að sjá sel svamlandi í yfirborðinu að éta það sem hann hefur veitt. Maður hefur oft séð selinn fást við stóran karfa eða þorsk. Ekki get ég fullyrt að maður hafi séð hann éta lax en hins vegar hafa þeir verið að éta eitthvað glitrandi sem maður getur ekki fest auga á nákvæmlega. Þetta má sjá þegar logn er og sjórinn nógu sléttur. Í annan tíma sjá menn bara ekki selinn, hvorki selinn né það sem hann étur.

Það er auðvitað hægt að rannsaka þetta við vissar veðuraðstæður en það kostar að menn þori að heimila rannsóknir í hafinu með tilteknum veiðum, að merkja laxinn þar og fá jafnvel betri endurheimtur og nýtingu þeirra fjármuna sem í þetta eru settir.