131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[16:42]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég á nú fyrst og fremst það erindi hingað að taka undir efni þessarar tillögu eða anda tillögunnar, skulum við segja, um að efla rannsóknir á afdrifum laxa í sjó. Ég held að þessi konungur fiskanna á okkar slóðum, sem við gjarnan köllum svo, hinn eðalborni Atlantshafslax, eigi inni hjá okkur að við sinnum honum að þessu leyti meira en gert hefur verið. Mér finnst að við mættum m.a. fylgja eftir hinu merka, mér liggur við að segja einstæða, frumkvæði Orra Vigfússonar sem er orðið vel þekkt í okkar heimshluta, hugsjónastarf og árangursríkt verndarstarf sem reyndar hefur líka mikið hagnýtt gildi. Það er auðvitað enginn vafi á því að það væri stórkostlegt tjón í öllu tilliti ef laxastofnarnir hryndu endanlega á þessum slóðum. Eins og kunnugt er er ástand þeirra víða mjög dapurlegt.

Ég vildi jafnvel gjarnan að þessar rannsóknir væru víðtækari en kannski en meginandi tillögunnar gengur út á. Hún beinist mjög að því að leggja mat á afdrif fullorðinna kynþroska laxa og ferðir fullorðinna laxa í hafi, svona þegar tillögugreinin sjálf er lesin. En þegar farið er í greinargerðina þá eru vissulega lagðar upp rannsóknarforsendur sem eru mjög áhugaverðar. Ég held t.d. að það sé enginn vafi á því að reyna þarf að rekja ferli seiðanna, allt frá því þau koma í sjó og jafnvel reyna að átta sig á því hvort það er munur á því hvernig þeim reiðir af í sjónum miðað við ástand þeirra þegar þau ganga niður.

Sömuleiðis er ljóst að lesa þarf saman umhverfisþættina. Við þekkjum vel miklar sveiflur sem tengjast umhverfisþáttum t.d. hitastigið. Það er a.m.k. mjög vel þekkt í ám á mínum heimaslóðum, á Norður- og Norðausturlandi og Austfjörðum. Ég held að ekki sé um það deilt að vandinn við að fylgja slíkum hlutum eftir liggur síðan í þekkingargati þegar kemur að vegferð laxins í hafinu.

Það er sannarlega líka ástæða til að fara yfir þetta með beitarsvæðin sem og að skoða laxinn sem hluta af fjölstofna rannsóknum. Í greinargerðinni er bæði minnst á fæðu laxa í sjó eftir árstíma og afræningja laxa í hafi. Síðasti ræðumaður nefndi þar einn mögulegan sökudólg, þ.e. selinn. Nú hef ég ekki sömu þekkingu og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, sem gegnum langa sjómennsku hefur skoðað málið frá þeim sjónarhóli. En víst er að selurinn er enginn aufúsugestur í nágrenni við árósa laxveiðiáa og vel þekkt að hann er bæði afkastamikill við veisluborðið sjálft auk þess sem hann fælir fiskinn frá.

Ég held að fjórði þátturinn gæti vel komið við sögu. Maður heyrir oft að ástæða sé til að huga að því hvort ákveðin veiðarfæri geti mögulega verið að verki eða verið einn samverkandi þátta. Það heyrist oft nefnt að stórvirku veiðarfærin, eins og nót eða flotvarpa, kunni að einhverju leyti að vera orsakavaldur. Því er iðulega haldið fram að annar stofn, sem er nú í mikilli lægð við landið, þ.e. hrognkelsin, verði fyrir miklum búsifjum þegar stórvirkum veiðarfærum er beitt á vissum hafsvæðum á vissum árstímum.

Síðan held ég að skoða eigi einn þátt enn í þessu samhengi, þ.e. að Ísland er auðvitað ekki eitt í þessum efnum. Það er löngu viðurkennt að um sjálfstæða stofna með sjálfstæða erfðaeiginleika er að ræða í nánast hverri laxveiðiá fyrir sig og mikill munur á milli landshluta. Það er óhjákvæmilegt að rannsóknir taki mið af því að eitt gildir um laxinn og umhverfisaðstæður hans á norðausturhorni landsins en annað um laxinn á norðvestanverðu landinu, Vesturlandi og Suðurlandi. Merkingar þurfa að taka mið af því að breytileikinn í lífríkinu er mikill að þessu leyti. Menn áttuðu sig því miður sorglega seint á þeim mun eða kannski væri nær að segja að menn gleymdu honum um tíma, þegar menn fóru að hræra saman ólíkum laxastofnum í seiðasleppingum, nokkuð sem jafnvel frumkvöðlarnir fyrir miðbik 20. aldar virtust átta sig betur á en ýmsir þeirra sem síðar komu. Mestu mistökin í þessum efnum voru gerð á 6. og 7. áratug síðustu aldar. En frumkvöðlar í klaki laxaseiða og sleppingum víða í héruðum virtust átta sig betur á mikilvægi þess að halda einstökum stofnum aðgreindum.

Að síðustu, af því hér hefur borið á góma hinn stórmerka stórurriða í Þingvallavatni og menn verið hér með játningar honum til stuðnings þá ætla ég ekki að láta mitt eftir liggja í því og leggja mitt litla lóð á þær vogarskálar. Að sjálfsögðu er meira en tímabært að menn tali ekki bara um þann möguleika að fjarlægja mannvirkin í efstu virkjuninni í Steingrímsstöð og skila urriðanum aftur búsvæðum sínum efst í Soginu og hleypa vatni á farveginn neðan við stífluna. Það er ankannalegt að ganga þurrum fótum þar, eins og ég hef gert til að ímynda mér hvernig þar gæti verið umhorfs ef þar væri nú allt með felldu og vatnið fossaði þar fram. Ég held að koma eigi því máli á alvarlegt skoðunarstig sem einhvers konar sameiginlegu verkefni stjórnvalda, hagsmunaaðila og fyrirtækisins sem þar á í hlut.

Þegar svo miklir menn styðja það, sem tillögumaður, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem einnig er doktor, og hæstv. landbúnaðarráðherra, sem hér fór með játninguna, og síðan var upplýst að hæstv. dómsmálaráðherra væri ásamt þeim félagi í ónefndum klúbbi, ákaflega „prompt“ klúbbi sem heitir Þingvallanefnd sem kann að skýra að einhverju leyti hve vel þeir hafa náð saman um þessi mál, þá er það meira en nóg til þess, og efni málsins auðvitað, að menn geri meira en að tala um þetta og reyni að koma málinu á alvöruspor.

Af því að ég hef grun um að hv. þm. Össur Skarphéðinsson ætli í orðaskipti við mig þá mætti hann í leiðinni upplýsa um það: Aðhefst Þingvallanefnd, sem auðvitað er ekki óeðlilegur aðili til að koma hreyfingu á þessi mál, eitthvað í því að þetta komist á meira en bara umræðustig?