131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[16:50]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs skýra og skelegga ræðu. Hv. þingmaður hefur augljóslega töluverða þekkingu og reynslu af þessum málum.

Ég þakka hv. þingmanni undirtektir hans við hið gamla baráttumál mitt og annarra að opna aftur farveg fyrir urriðann niður Efra-Sogið og í reynd taka upp Steingrímsvirkjun. Hv. þingmaður lýsti mjög skýrt stuðningi við það. Þá virðist mér sem í þinginu sé að myndast meiri hluti fyrir því að í þetta verk verði ráðist. Það væri þá ekki neinn þröskuldur eftir nema hugsanlega fríríkið í ríkinu, Landsvirkjun, sem móaðist við.

Hv. þingmaður spurði hvað Þingvallanefnd hefði rætt eða aðhafst í þessu efni. Þar er frá ýmsu að segja. Innan Þingvallanefndar, þar sem sá sem hér stendur situr ásamt hæstv. landbúnaðarráðherra og dómsmálaráðherra, hafa menn lokið við gerð stefnumótandi áætlunar til næstu 20 ára fyrir Þingvallanefnd og þjóðgarðinn. Þar kemur fram skýrum stöfum að nefndin er sammála um að stefna beri að því að opna urriðanum farveg niður Efra-Sogið og hugsanlega fara í samræður við Landsvirkjun sem mundu hafa þær afleiðingar á Steingrímsvirkjun sem hv. þingmaður talaði um. Þar er um ákaflega mikilvægt atriði að ræða.

Jafnframt er rétt að taka það fram að menn hafa sammælst um það innan Þingvallanefndar að leggja þessa áætlun fyrir þingið til umræðu síðar á þessu vori þannig að hv. þingmenn ættu kost á því að fjalla um hana en málið yrði ekki bara lokað inni í nefndinni.