131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[17:05]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur kannski örlítið misskilið orð mín. Það vakti alls ekki fyrir mér að fara að egna saman íslenska hestinum og íslensku laxastofnunum, langt í frá. Ég dró þetta hins vegar fram til að bera það saman að stjórnvöld hér á landi virðast vera reiðubúin til að verja miklu fé í hestamennsku og uppbyggingu og orðstír íslenska hestastofnsins og ég kalla eftir því að sjá sama vilja hvað varðar fjárveitingar til að hlúa að íslenskum laxastofnum eða stofnum íslenskra ferskvatnsfiska því þar er mikil auðlind sem ég tel að mörgu leyti vannýtta.

Það hvarflaði að mér ein lítil hugmynd einmitt á meðan ég var að hlusta á andsvar hæstv. landbúnaðarráðherra. Hún er einmitt sú að hesturinn og ferskvatnsfiskarnir, stofnarnir, gætu einmitt farið mjög vel saman, t.d. í ferðamennsku í sveitum landsins þar sem við gætum hugsað okkur að í framtíðinni — hugsanlega er farið að gera það nú þegar — yrði ferðamönnum boðið upp á að fara á hestum til veiða í ám og vötnum. Þetta væri kannski ekki svo vitlaus hugmynd til framtíðar því að ég get fátt ímyndað mér skemmtilegra en að eiga fagurt sumarkvöld við íslenskt heiðarvatn með íslenskan hest mér við hlið og stöng í hendi.