131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[17:07]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Íslenska ríkið hefur ekki varið miklum fjármunum til íslenska hestsins fyrr en allra síðustu árin og eru það ekki stórar upphæðir. Við höfum farið þar í ákveðin átaksverkefni sem kannski fyrst og fremst snúa að því að Íslendingar haldi forustu sinni um hestinn, fari með aðalhlutverkið um íslenska hestinn. Við höfum meira að segja orðið að berjast fyrir því á alþjóðavettvangi að Ísland sé upprunaland hans. Við sjáum það vissulega núna í gegnum átaksverkefni að það skilar sér í atvinnugrein sem er í mikilli sókn. Þeir litlu fjármunir sem hefur verið varið til hestsins eru að koma til baka í atvinnugreininni sem eflir auðvitað áhuga almennings fyrir íþróttinni hér heima, sem betur fer.

Ég var fyrst og fremst í þessum þætti í gær að kynna tillögu sem er afrakstur þingsályktunartillögu eins og hér er verið að flytja á öðru sviði. Hugsjónahópur kemur saman og fer yfir þörfina, metur hana og kemst að raun um að hyggilegt sé að verja fjármagni til að byggja ákveðnar þjónustumiðstöðvar eða hús, reiðhallir, reiðskemmur, til að efla þessa atvinnugrein og jafnræði á milli fólks í landinu. Auðvitað gæti það gerst eins á þessu sviði að þingið verður samhentara um málið. Þegar kemur að þessu máli og eins í kringum hestinn þarf ég auðvitað að hafa þingið með mér í því spilverki, fjárlaganefndina og stuðning ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar, til þess að góð mál fari hér í gegn. Ég held að þeir peningar sem fara í þetta verkefni, þá þingsályktun sem hér er rædd, og ekki síður í hestinn, komi margfaldir til baka í ríkiskassann í vexti greinanna.