131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[17:26]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu, Össur Skarphéðinsson, talaði um að stórlöxum hefði fækkað verulega undanfarin ár. Það hefur ekki komið fram í umræðunni hér í dag að síðasta ár, árið 2004, var afskaplega gott veiðiár, eitt það besta á tímabili sem spannar ein 30 ár aftur í tímann. Alls veiddust 46 þúsund laxar á stöng og held ég rúmlega 50 þúsund laxar þegar netaveiðin er tekin með. Þetta var afskaplega góð veiði. Nú veit ég ekki hvort tölur liggja fyrir um það hversu hátt hlutfall af þeim afla, þ.e. af þeim rúmlega 50 þúsund löxum, hafi verið fiskur sem hafði verið tvö ár í sjó.

Það er þó alla vega rétt að fram komi við lok þessarar umræðu að það er kannski ekki endilega svartnætti sem knýr okkur til þess að reyna að sýna einhverja viðleitni til að leggja meiri áherslu á að rannsaka afdrif laxa í sjó, því sem betur fer er það þannig að íslensku laxveiðiárnar virðast halda sínu nokkurn veginn þó að að sjálfsögðu séu allverulegar sveiflur á milli ára. Það er einmitt þá sem þessar rannsóknir ættu kannski að fræða okkur einmitt um orsakir slíkra sveiflna, hvað það er sem gerir það að verkum að árnar geta dottið niður í lægð sem varir jafnvel í nokkur ár en síðan blómstrað, tekið skyndilegan kipp upp á við, eins og við sáum síðasta sumar sem betur fer.

Spurning mín í þessu andsvari til hv. þingmanns Össurar Skarphéðinssonar er sú hvort honum sé kunnugt um hvert hlutfall stórlaxa hafi verið á síðasta sumri.