131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[17:28]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki get ég svarað þessari spurningu svo nákvæmlega. Eftir óljósu minni held ég samt að það hafi ekki aukist þó heildarfjöldinn hafi aukist, hlutfallið sé ákaflega svipað.

Ég er heldur ekki alveg sammála honum um að það sé gott ástand á íslenska laxastofninum vegna þess að síðasta einn og hálfan áratuginn hefur hann heldur verið á niðurleið. Eins og ég rakti í seinni ræðu minni áðan er ástandið fráleitt eins slæmt hér og sums staðar í Norður-Ameríku og í löndum Evrópu. Það hefur verið miklu betra hér. Fyrir því eru ákveðnar ástæður.

Það er hins vegar ákaflega merkilegt að skoða hvernig hlutfall stórlaxa hefur breyst í frægum stórlaxaám. Við getum tekið tvær, Sogið og Laxá í Aðaldal. Þetta voru frægar, heimsfrægar, stórlaxaár. Auðvitað kann að vera að erfðablöndun í Soginu, þ.e. sú staðreynd að þar var sleppt mjög miklu af Elliðaárlaxi sem er smávaxinn stofn, hafi leitt til þess að það er ekki fyrr en á seinni árum sem stórlaxar eru aftur farnir að gera vart við sig í einhverjum mæli í veiðinni.

En það er erfiðara að segja um þetta hvað hvarðar Laxá í Aðaldal þar sem mér a.m.k. er ekki kunnugt um að menn hafi verið að sleppa miklu af Elliðaárlaxi þótt vafalítið hafi eitthvað af honum farið þar í. En þetta voru frægar stórlaxaár. Síðan 1965 hefur hlutfall stórra laxa í þeirri veiði verið að minnka, getur eitthvað tengst því að þá urðu hitaskil, kringum 1965, ef ég man rétt, 1965–1970, það er hugsanlegt. Og það er hugsanlegt að þegar við erum að sjá núna aftur mikil hitabrigði í hafinu og umhverfis landið að við sjáum kannski einhverjar breytingar líka vera að gerast í þessu. Þetta er eitt af því sem þarf að rannsaka.