131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[17:31]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi orðaskipti milli mín og flutningsmanns leiða kannski einmitt hugann að því að þær rannsóknir sem talað er um hér í dag að þurfi að stunda eru í raun og veru afskaplega þarfar og er þarft að fara út í þær.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi hér atriði eins og áhrif umhverfisþátta á borð við hitastig, á það hvort mikið af laxi er eitt ár eða tvö í sjó. Ég tek undir þetta og hef á vissan hátt lúmskt gaman af því að taka þátt í umræðunni um þessa þætti því að ég gerði á sínum tíma lokaverkefni þegar ég var að læra fiskifræði einmitt um þessa hluti þar sem ég skoðaði hugsanleg tengsl á milli hlutfalls stórlax og smálax við hitastig í ám að vorlagi og síðan við ströndina í sjónum fyrri hluta sumars. Þá komst ég að raun um það sem við Íslendingar vitum og höfum í raun og veru vitað lengi, og ættum kannski að notfæra okkur mun betur en við gerum í dag, að við búum einmitt yfir mjög góðum og einstökum gögnum hvað varðar veiði í ánum okkar marga áratugi aftur í tímann vegna þess að hér hefur lengi verið lögbundið að ég tel, a.m.k. hafa menn gert það mjög samviskusamlega, að skrá niður alla veiði. Menn hafa tekið hreistur og annað þess háttar og safnað mjög miklu af upplýsingum. Það má vel vera að ef við veittum til að mynda meiri peninga í þessar rannsóknir og meiri peninga í það að Veiðimálastofnun gæti sinnt rannsóknarhlutverki sínu að þá mætti kreista enn meira út úr þeim gögnum sem þegar liggja fyrir í hirslum Veiðimálastofnunar í dag og finna þannig svör við mörgum af þeim spurningum sem leita á huga okkar nú og hafa komið fram við þessa umræðu.

Ég vil síðan loka þessari umræðu og hafa lokaorð mín þau að ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að hafa tekið þetta mál upp á hinu háa Alþingi.