131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

59. mál
[17:45]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki á mér setið að koma aðeins inn í umræðu um þetta mikilvæga mál sem flutt er í fjórða sinn. Fyrir það fyrsta er þetta ákaflega vandað og gott þingmál með upplýsandi fylgiskjölum, bæði auglýsingin um friðlandið í upphafi og ályktanir frá heimamönnum um málið. Það er til sóma hvernig að því er staðið að öllu leyti.

Ég styð þingsályktunartillöguna um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum heils hugar. Ég hef fylgst nokkuð vel með málinu á undanförnum árum og tók nokkurn þátt í því fyrir fjórum árum, árið 2001, þegar haldinn var síðari sveitarfundurinn í Árnesi í Gnúpverjahreppi þar sem stór hluti íbúa Gnúpverjahrepps skoraði á stjórnvöld að vernda Þjórsárverin og skerða þau ekki í þeim fyrirhuguðu virkjunarframkvæmdum sem þá voru uppi. Fyrri fundurinn var haldinn í Árnesi, 17. mars 1972, og stendur mörgum íbúum í hreppunum mjög nærri enda hægt að fullyrða að svæðið er algerlega einstakt og stórbrotið.

Ég hef komið þarna inn eftir, bæði ríðandi og keyrandi og það er engu líkt að koma í þá gróðurvin sem er í auðninni miðri, þessa stóru afmörkuðu gróðurvin. Þarna er landslag, vatnafar, varpstöð og allt eins og upp er talið í ályktuninni með þeim hætti að það væru mjög dramatísk og alvarleg afglöp ef Þjórsárverin væru skert eða þeim fórnað fyrir stundargróða vegna frekari virkjunarframkvæmda í efri hluta Þjórsár. Þarna er búið að virkja mjög mikið á undanförnum að verða fjórum áratugum. Hver virkjunin á fætur annarri hefur sprottið upp og eins og fram kemur er þegar búið að veita um 40% af Þjórsá í Þórisvatn. Það er því búið að virkja mikið á svæðinu og engin rök uppi um að skerða eigi svæðið og mjög mikilvægt að það verði allt friðlýst en ekki bara hluti heldur að, eins og hér segir: „… mörkum friðlandsins í Þjórsárverum verði breytt og það stækkað þannig að sem mest af gróðurlendi svæðisins lendi innan friðlýsingarmarkanna.“ Ég styð þetta markmið heils hugar og vona að það gangi eftir. Það væri Alþingi til mikils sóma ef tillagan sem flutt er í fjórða sinn af Vinstri hreyfingunni – grænu framboði næði fram að ganga og kæmi sem ályktun frá Alþingi í vor þannig að vinna mætti hefjast við að stækka friðlandið í Þjórsárverum þannig að það næði yfir allt svæðið og gleðst nú þingflokksformaður Vinstri grænna mjög.

Það er að mörgu leyti til skammar hvernig Landsvirkjun hefur gengið fram í virkjunarmálum á liðnum árum með yfirgangi og ruddaskap að mörgu leyti. Til að mynda þegar lagt var til að stíflan yrði reist með þeim hætti, Norðlingaölduveitu, að verin mundu skerðast að verulegu leyti var það ákveðinn áfellisdómur yfir þeirri stefnu sem hefur verið rekin í virkjunarmálum að mínu mati og menn fóru algeru offari. Sem betur fer náðist að hægja á þeirri þróun eða stöðva að hluta, ekki síst fyrir öfluga baráttu heimamanna eins og áður gat um. Yfir 70% af kosningabærum íbúum Gnúpverjahrepps skrifuðu undir yfirlýsingu sem er rakin í þingmálinu. Þann 24. maí 2001 var samþykkt ályktun almenns fundar í hreppnum sem ég var á og þá kynnti ég mér einmitt fyrst málið að einhverju marki. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fundurinn lýsir eindreginni andstöðu við Norðlingaölduveitu og aðrar fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í Þjórsárverum og efri hluta Þjórsár.

Fundurinn bendir á margþættar rannsóknir færustu vísindamanna sem sanna sérstöðu svæðisins í íslenskri náttúru þar sem þeir vara við allri röskun af manna völdum enda er svæðið þekkt víða um heim og stór hluti þess friðlýstur.“

Fundurinn ályktar þannig formlega með áskorun um að með 1.–5. áfanga Kvíslaveitu hafi nú þegar orðið veruleg röskun á vatnafari Þjórsár og ekki megi ganga lengra enda eru margir fossanna í Þjórsá, Gljúfurleitarfoss, Dynkur og fleiri ekki svipur hjá sjón þegar rennsli í ánni er hvað minnst. Nú þegar hefur því verið unnið töluvert umhverfistjón á svæðinu og menn hafa fórnað ýmsu en lengra má alls ekki ganga að mínu mati og þess vegna lýsi ég yfir stuðningi mínum við málið.

Landsvirkjun hefur gengið mjög langt fram í virkjunarstefnu sinni á liðnum árum, bæði hvað varðar yfirgang í eignarnámi jarða til að leggja yfir spennulínur þar sem engu er eirt og fyrirtækið virðist ná nánast hverju sem er þar til nú, en fram kom í fréttum um helgina að iðnaðarráðuneytið hefði hafnað beiðni fyrirtækisins um eignarnám tveggja jarða en heimilað öðrum þannig að vonandi er eitthvað að breytast í málinu. Skerða átti svæði sem er eitt það verðmætasta á öllu hálendi Íslands og er þá mikið sagt. Þetta er feikilega verðmætt svæði og þó svo að þarna verði aldrei um að ræða verulega umferð ferðamanna, því svæðið er mjög viðkvæmt, blandast engum hugur um verðmæti þess fyrir land og þjóð að búa að slíkri hálendisvin, verndaðri, friðaðri og óskertri enda væru það afglöp þeirrar kynslóðar sem nú er uppi gagnvart framtíðinni að skerða eða eyðileggja þetta merkilega, fallega og einstaka svæði sem Þjórsárverin eru. Verið væri að fórna miklum og einstökum verðmætum fyrir stundarhagsmuni og fyrir því eru engin rök að mínu mati. Það verður að vega og meta fórnarkostnaðinn hverju sinni og út á það hefur virkjunarumræðan að sjálfsögðu gengið á liðnum árum og menn verið tilbúnir til að fórna ansi miklu fyrir hugsanlegan ágóða, aukin útflutningsverðmæti og uppgang á ákveðnum landsvæðum en þarna eru engin rök fyrir framkvæmdunum sem skerða friðlandið eða verin að neinu marki, því auðvitað þarf friðlandið að ná yfir allt gróðurlandið þarna þannig að það komi aldrei til að það verði skert.

Hæstv. forseti. Tíminn er stuttur og málið stórt og mikilvægt og ég vona að þó við séum ekki mörg í umræðunni núna endurspegli það ekki afdrif málsins. Það er Alþingi Íslendinga ekki til sóma hvernig mörg mál sem eru þjóðþrifamál eru látin daga uppi og sofna í nefndum, mál sem eru í eðli sínu þverpólitísk og á að vera hægt að ná sátt og samstöðu um. Þetta er til marks um þingmál sem á að koma aftur að mínu mati í þingið eftir nefndarvinnu og afgreiðast frá Alþingi í vor. Þetta er mjög mikilvægt mál og vel unnið, um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, og ég styð það.