131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Vernd og sjálfbær nýting lífvera á hafsbotni.

60. mál
[17:55]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um vernd og sjálfbæra nýtingu lífvera á hafsbotni ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.

Tillagan gengur út á að Alþingi álykti að fela sjávarútvegsráðherra í samráði við Hafrannsóknastofnun að friða í varúðarskyni þau svæði á hafsbotni sem brýnast er talið að vernda til að koma í veg fyrir meira tjón á lífríki og uppvaxtarskilyrðum nytjafiska en orðið er.

Jafnframt gerir tillagan ráð fyrir því að áætlun verði unnin um frekari rannsóknir á áhrifum veiða og veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins og um aðgerðir til að draga úr skaðlegum áhrifum af þeirra völdum og til að tryggja sjálfbæra nýtingu vistkerfa hafsbotnsins innan efnahagslögsögunnar.

Við undirbúning og meðferð málsins gerir tillagan ráð fyrir að leitað verði eftir samvinnu við umhverfisráðherra, rannsóknastofnanir, hagsmunaaðila í sjávarútvegi og samtök áhugamanna eftir því sem við á.

Skorti á lagaheimildir til æskilegra verndaraðgerða og til að tryggja sjálfbæra nýtingu hafsbotnsins verði lagðar fyrir næsta löggjafarþing tillögur þar að lútandi, sem og skýrsla um framvindu verndaraðgerða og fjárþörf vegna æskilegra rannsókna.

Hef ég nú farið í gegnum efni tillögutextans. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að hún var lögð fram seint á 128. löggjafarþingi en þá náðist ekki að taka hana á dagskrá. Hún var lögð fram á 130. löggjafarþingi og afgreidd til sjávarútvegsnefndar og sendi nefndin hana til umsagnar ýmissa aðila. Þeir sem sendu nefndinni umsögn voru m.a. Eyþing – Samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Hafrannsóknastofnun, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Sjómannasamband Íslands og Vélstjórafélag Íslands. Ekki er hægt að segja að allir umsagnaraðilar hafi tekið beina afstöðu til tillögunnar og sumir voru þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að niðurstöður rannsókna Hafrannsóknastofnunar lægju fyrir áður en farið yrði út í frekari friðunaraðgerðir á einstökum svæðum. En í umsögn Hafrannsóknastofnunar, sem birt er sem fylgiskjal með tillögunni, koma fram afskaplega gagnlegar upplýsingar um þær rannsóknir sem hafa verið gerðar og aðrar sem standa yfir. Það er tvímælalaust mat tillöguflytjenda að í umsögn Hafrannsóknastofnunar komi berlega í ljós þörfin fyrir friðun í varúðarskyni, sem er eitt af meginatriðum tillögunnar og þess vegna þykir okkur rétt að endurflytja tillöguna óbreytta.

Tillagan á reyndar rætur í eldri þingmálum og í eldri þingsályktunartillögu Hjörleifs Guttormssonar sem samþykkt var 28. maí 1998. Sú þingsályktunartillaga er birt sem fylgiskjal með málinu og sömuleiðis teikning sem við höfum aflað okkur sem sýnir þá kóralgarða í Norður-Atlantshafi sem eru til staðar. Þeir kóralgarðar eru afar merkilegir og í þeim er svokallaður steinkórall, Lophelia pertusa á latínu, og er kórallinn og kóralrifin gífurlega mikilvæg fyrir uppvaxtarskilyrði fiska. Einnig, eins og ég gat um áðan, er umsögn Hafrannsóknastofnunar um þingsályktunartillöguna frá 26. nóvember 2003 birt sem fylgiskjal. Í umsögninni er fjallað um eftirfarandi atriði:

Kortlagningu hafsbotnsins með fjölgeislamæli, hvar þau mál standa og kortlagningu búsvæða sömuleiðis. Farið er yfir umfang og dreifingu botnvörpuveiða á Íslandsmiðum, fjallað um áhrif botnvörpuveiða á lífríki botns í Stakksfirði og Faxaflóa, áhrif rækju- og hörpudisksveiða á lífríki botns og viðkvæm búsvæði. Fjallað er um langtímaáhrif vatnsþrýstiplógs á lífríki botnsins, um kjörhæfnis- og skiljurannsóknir o.fl. Fram kemur í umsögninni að þekkingin á áhrifum botnvörpu á lífríkið hafi aukist verulega á seinni árum en þó hafi fáar rannsóknir athugað áhrif svæðisbundinna lokana á botndýralíf og talað er um að úr því þurfi að bæta.

Að öðru leyti vísa ég til umsagnarinnar sem birt er sem fylgiskjal með tillögunni en í henni kemur fram, þegar öllu er á botninn hvolft, að Hafrannsóknastofnun hefur unnið að ýmsum verkefnum sem ætlað er að varpa ljósi á áhrif veiða á umhverfið og auðvitað telur stofnunin grundvallaratriði í því samhengi að ljúka kortlagningu hafsbotnsins á næstu árum og könnun á áhrifum friðunarsvæða svo meta megi ástandið kerfisbundið og koma þannig á nauðsynlegum verndaraðgerðum þar sem það á við.

Sjónarmið okkar í málinu er að verulega mikilvægt sé að ákveðin svæði verði friðuð í varúðarskyni því við teljum verulegar vísbendingar vera um að tjón sem orðið hefur á lífríki hafsbotnsins vegna notkunar botnveiðarfæra haldi áfram, ekki sé búið að koma í veg fyrir tjón af völdum þessara veiðarfæra heldur haldi það áfram meðan þau eru notuð á viðkvæmum svæðum. Eflaust hafa mörg ykkar hér séð myndina sem sjónvarpið hefur sýnt um þetta efni sem fjallar um áhrif veiða á kórallasamfélög á hafsbotni við Noreg.

Ég minni líka á að á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg um sjálfbæra þróun, sem haldin var sumarið 2002, voru á dagskrá málefni hafsbotnsins og gildi búsvæða hans, þar á meðal kórallasamfélaga fyrir sjálfbæra þróun lífríkis sjávar. Það er mat okkar sem flytjum tillöguna að þörf sé á kerfisbundnum rannsóknum á þessu sviði. Það hefur blasað lengi við að allt of lítið hafi verið að gert hérlendis í þessum efnum. Auðvitað þarf meiri fjármuni í þetta allt saman og þar hangir að sjálfsögðu á spýtunni en ég tel vera um slíkt grundvallaratriði að ræða að okkur ætti ekki að vera ofraun að setja aukna fjármuni í rannsóknirnar til að tryggja áframhaldandi uppvaxtarskilyrði nytjafiska á Íslandsmiðum.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og hv. sjávarútvegsnefndar.