131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Verndaráætlun fyrir svæði sem eru ósýkt af sauðfjárriðu.

61. mál
[18:35]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka viðbrögðin. Ég vona að ég hafi ekki verið misskilinn, hvort tveggja er að ég er að vekja athygli á riðuveikivandanum og tel fulla ástæðu til þess. Þegar ég skoðaði málið sannfærðist ég enn betur um að það er virkileg þörf á því að menn fari yfir þessi mál og ég fagna því að landbúnaðarnefnd hafi tekið málið upp til skoðunar og trúi því að í framhaldinu fylgi vinna sem geti hjálpað til í þessu öllu saman. En ég var ekki bara að flytja málið til að vekja athygli á riðuveikivandanum heldur líka af því að ég trúi því að í þessu sé fólginn ákveðinn möguleiki, að bændur geti nýtt sér þau svæði þar sem ekki hefur komið upp riða til að selja þaðan vörur með sérstakri gæðavottun og það verði hvatning til þess að menn passi hlutina enn þá betur, vegna þess að ný og ný svæði geta komið inn vottuð sem riðulaus svæði eftir ákveðinn tíma frá því að riðan greindist sem menn telja tryggingu fyrir því að svæðið sé orðið riðulaust aftur. Íslenskir bændur verði því og allir sem eiga hlut að máli — því það eru ekki bara bændur. Bændur eiga nefnilega mikið undir öðru fólki hvað það varðar að berjast við sjúkdóminn, ekki síst hestamönnum og öðrum sem eiga búfé og eru jafnvel líka að rækta skepnur upp á sport.