131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Verndaráætlun fyrir svæði sem eru ósýkt af sauðfjárriðu.

61. mál
[18:39]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Verndarsvæðin sem ég sé fyrir mér eru bara sömu svæði og menn hafa notað til að berjast við sjúkdóminn. Ég sé fyrir mér að til að byrja með væri fyrst og fremst um að ræða — ja, ég ætla ekki að dæma um það vegna þess að ég tel ástæðu til þess að þeir sérfræðingar sem mundu skoða málið færu yfir það hve stór svæði þetta gætu verið, en Strandirnar og norðausturhornið, í Þistilfirði og þar, og Snæfellsnesið eru svæði sem aldrei hefur komið upp riða á. Varnarhólfin sem þar eru gætu t.d. verið fyrstu verndarsvæðin. Hugsanlegt er að þeir sem munu véla um þetta komist að þeirri niðurstöðu að einhver önnur svæði séu nú þegar komin yfir vandann, en ég hef ekki trú á því vegna þess að það virðast vera til staðfest dæmi um að a.m.k. 18–20 ár hafi liðið á milli þess að upp hafi komið smit vegna þess að smitefnið hafi leynst á svæðinu. Ég trúi því að menn verði í einhvern tíma að láta sér nægja að hafa verndarsvæðin þar sem aldrei hefur komið upp riða. En innan tiltölulega fárra ára ættu svæðin að geta orðið fleiri og stærri og þá mundi auðvitað vera miðað við varnarhólfin sem hafa verið notuð.

Eitt af því sem þarf t.d. að gera er að sjá til þess að menn beri virðingu fyrir varnarhólfunum. Menn hafa jafnvel verið að keyra í gegnum girðingarnar og eyðileggja þær fyrir (Forseti hringir.) einhvern — ja, við skulum bara segja kjánaskap.