131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Verndaráætlun fyrir svæði sem eru ósýkt af sauðfjárriðu.

61. mál
[18:41]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegur forseti. Kortið sem fylgir með í fylgiskjali á bls. 3 er afskaplega athyglisvert. Það er rétt sem hv. þm. Jóhann Ársælsson benti á að þetta eru ein þrjú, já, ég sé ein fimm svæði þar sem riða hefur ekki komið upp, fimm hólf. Það eru Strandirnar, Þistilfjörðurinn, utanvert Snæfellsnes, uppsveitir Borgarfjarðar að því er ég best fæ séð og sunnanverðir Austfirðir að því er ég best fæ séð.

Það er alveg þess virði að skoða mjög vandlega hvort ekki sé einmitt ástæða til þess að gera það sem hv. þingmaður leggur til, að taka upp verndaráætlun og nota þau svæði þar sem riða hefur ekki komið upp sem framleiðslusvæði fyrir líflömb inn á svæðin þar sem riðan hefur komið fram. Eins og ég nefndi áðan er þetta geysilega illvígur sjúkdómur og getur komið upp aftur þrátt fyrir að mjög mörg ár séu liðin frá því að hans var síðast vart og eru uppsveitir Árnessýslu í fyrra einna skýrasta dæmið um það. Við höfum líka önnur dæmi eins og sést á kortinu sem fylgir með þingsályktunartillögunni.

Það er kominn tími til að við hreinlega, árið 2005, lýsum yfir stríði á hendur þessum sjúkdómi, skerum upp algera herör gegn sjúkdómnum og setjum okkur það markmið að útrýma honum í eitt skipti fyrir öll. En að sjálfsögðu mun það kosta fórnir.

Eins og hv. þm. Dagný Jónsdóttir benti á áðan verður þetta umræðuefni til umfjöllunar í hv. landbúnaðarnefnd í fyrramálið. Ég á þar sæti sem áheyrnarfulltrúi og verð að segja að ég hlakka mikið til þess fundar og vænti þess að málið verði tekið mjög föstum tökum þar.