131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Verndaráætlun fyrir svæði sem eru ósýkt af sauðfjárriðu.

61. mál
[18:43]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka undirtektirnar og tek undir það að ástæða sé til að menn taki höndunum saman. Ég held reyndar að markmiðin hafi verið sett, að ráða niðurlögum þessa sjúkdóms og að til þess hafi verið fullur vilji. En þegar mál taka svo langan tíma og svo erfiðan sjúkdóm sem þennan er við að eiga þá þurfa menn á öllu sínu að halda til að viðhalda baráttunni. Þess vegna er ástæða til að skoða málin upp á nýtt.

Við höfum séð að sums staðar hafa girðingar drabbast niður. Það getur vel verið að nú orðið sé ástæða til að fækka jafnvel hólfum og hætta að viðhalda tilteknum girðingum milli hólfa og mynda stærri hólf eða eitthvað slíkt. Það þarf að skoða og fara yfir.

Ég held að það sé hárrétt að menn þurfi reglulega að endurnýja baráttuna í svona málum og það sé kominn tími á það í slagnum við sauðfjárriðuna. Ég vona sannarlega að menn standi sig í því því að það kann ekki góðri lukku að stýra að slaka á klónni varðandi það að flytja fé á bílum milli svæða án þess að þeir séu almennilega þrifnir. Ég þekki dæmi um það og ég veit að þeir sem hafa borið ábyrgð á því hjá yfirdýralækni hafa reynt að sjá til þess að betur sé gert hvað það varðar án þess að það hafi tekist.