131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Landsvirkjun.

[13:49]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Markaðsvæðing raforkuframleiðslu hér á landi var í upphafi byggð á þeim misskilningi að eyríkið Ísland þyrfti að fylgja Evrópuferlinu. Framsókn og hæstv. iðnaðarráðherra vilja fá að göslast áfram í markaðs- og einkavæðingunni, vilja gera mistök og lýsa því beinlínis yfir að mörg mistök verði síðan að leiðrétta, að handstýra þurfi lagfæringum og setja nýjar reglur um hverjir fái auknar niðurgreiðslur. Við búum til deilur og sem ráðherrar drottnum við yfir lagfæringum og niðurgreiðslum. Deilum og drottnum og leysum úr vanda sumra, þeir fá að vita að það þarf að leita á náðir Framsóknar eftir handstýrðum lagfæringum. Slík er skilaboð Framsóknarflokksins.

Sameining Orkubús Vestfjarða og Rariks inn í Landsvirkjun er nú boðuð af ráðherra. Þar er ekki horft til hagsmuna almennings eða landsbyggðar. Nú þarf að efla stöðu Landsvirkjunar og þá er sjálfsagt að fórna landsbyggðarfyrirtækjunum þó að það gangi þvert á markmið um eflingu byggðar og samkeppni í raforkusölu. Iðnaðarráðherra stefnir að einkavæðingu í raforkuframleiðslu, sölu og dreifingu. Framsókn er nú fremst í kapphlaupinu um einkavæðingu á almannaþjónustu.

Hæstv. forsætisráðherra vill sölu og einkavæðingu Símans með grunnnetinu og hæstv. iðnaðarráðherra stjórnar sölu og einkavæðingu á raforku að afloknum alþingiskosningum árið 2007, eins og hún upplýsti rétt áðan. Einkavæða á bæði almenningsþarfir og almannaþjónustu. Almannaþjónusta ríkis og sveitarfélaga á að tryggja sem jöfnust lífskjör í landinu og það hefur verið markmiðið hingað til, þ.e. að jafna lífskjörin.

Á tímum vaxandi ferðaþjónustu felast í því mikil verðmæti fyrir Íslendinga að halda landinu í byggð og kunna skil á sögu þess og staðháttum. Nú er stefnt að því að lífskjörin í landinu skuli færð niður. Arðskrafan skal innleidd og almenningur sem átti að fá betri kjör með barnabótum og fleiru fær að greiða söluverð fyrirtækjanna til baka í hærri notendakostnaði. Þar birtist hin nýja einkavædda skattlagning undir stjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins.

Einstakir þingmenn stjórnarliða lýsa því yfir að þeir hafi ekki verið spurðir og hafi allan fyrirvara á um stuðning. Sá eini (Forseti hringir.) sem staðið hefur á þeirri meiningu sinni hingað til er Kristinn H. Gunnarsson og var hann nærri rekinn úr Framsóknarflokknum fyrir vikið.