131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Landsvirkjun.

[13:52]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Í umræðum sem fóru fram um raforkumál eftir að þingmenn komu úr jólaleyfi skaut hæstv. ráðherra sér algjörlega undan því að upplýsa þingið og þjóðina um það hvert ríkisstjórnin stefndi. Þar talaði hæstv. ráðherra bara um gjaldskrármálin og fékkst ekki til að umla einu orði að því sem mestu máli skiptir, hvernig þessi markaður eigi að líta út í framtíðinni.

Nú stekkur hæstv. ráðherra fram, og ekki ein heldur með öðrum ráðherrum úr ríkisstjórninni þannig að nú hljóta menn að taka mark á þessu, og segir að framhaldið skuli verða það að sameina öll ríkisfyrirtækin í eitt og á það að hafa 90% af markaðnum. Það á að tryggja samkeppnina. Hæstv. ráðherra sagði það hér, tryggja samkeppnina. Það er þá líklegt til þess, eða hvað?

Það hljóta allir að spyrja sig: Á hvaða vegferð er ríkisstjórnin í þessu máli og hvers vegna gerir hún þetta? Það hlýtur að vera einhver stór ástæða fyrir því sem ekki hefur verið teflt fram. Ég skora á hæstv. ráðherra að segja nú einu sinni sannleikann, sannleikann um það hvers vegna ríkisstjórnin telur sig knúna til þess að steypa saman öllum fyrirtækjum á raforkumarkaði, eyðileggja einkavæðinguna sem hún er búin að standa fyrir á þessum markaði og koma í veg fyrir að eðlileg samkeppni geti orðið á markaðnum. Hver er ástæðan? Ég ætla að láta hæstv. ráðherra það eftir að segja fólki hér á þingi og þjóð sannleikann í þessu máli. Hann hlýtur að vera til og hann felst varla í því að það sé hagræðing í því að búa til svona umhverfi. Ættum við þá ekki að viðurkenna það í öllu samfélaginu að svona umhverfi ætti að gilda, 90%? Hin 10% mundu þá sameinast til þess að geta lifað af, ef þau gætu það þá.

Er mögulegt að ríkisstjórnin ætli sér þetta? Mér finnst vanta mikið upp á það að menn hafi útskýrt þessa U-beygju sem er komin á (Forseti hringir.) einkavæðinguna í raforkugeiranum.