131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Landsvirkjun.

[13:54]

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Hér er í rauninni verið að ræða tvennt, annars vegar fréttatilkynningu hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra og hins vegar viljayfirlýsingu þriggja aðila, þ.e. fulltrúa ríkisvaldsins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar.

Þetta snýst um þrennt, í fyrsta lagi að ríkið kaupi sveitarfélögin tvö út úr Landsvirkjun, síðan þá fréttatilkynningu hæstvirtra ráðherra að ríkið sameini orkufyrirtæki sín í eitt og í þriðja lagi að breyta hinu stóra og mikla fyrirtæki í hlutafélag og jafnvel selja. Þetta eru róttækar yfirlýsingar og fróðlegt verður að sjá hvernig þeim muni reiða af í framtíðinni. Þetta er auðvitað framtíðarmúsík sem á eftir að skoða á öllum vígstöðvum. Við vitum t.d. ekki hvernig þessu muni reiða af innan borgarkerfisins, eins og fram hefur komið opinberlega. Umræðan er ekki hafin innan þingflokkanna, ekki nokkurs þingflokks, þar á meðal Framsóknarflokksins en hún mun fara fram þar að sjálfsögðu. (Gripið fram í.) Ég vek athygli á því að ekki hefur verið samþykkt á flokksþingi Framsóknarflokksins að breyta Landsvirkjun í hlutafélag.

Hins vegar förum við í gegnum þá umræðu og það verður gaman að fara í gegnum hana á flokksþinginu sem er fram undan. Hér er umræða að hefjast um framtíðarmúsík og þá umræðu hljótum við að taka. Til þess erum við í stjórnmálum, eða hvað? (Gripið fram í: Hvað segir Brynja?)