131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Landsvirkjun.

[14:02]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra vék sér undan því að svara spurningum um einkavæðingu og hér vilja stjórnarþingmenn allt í einu ekki kannast við hugmyndir um einkavæðingu eða að neitt sé ákveðið í þeim efnum. Hv. þm. Hjálmar Árnason lýsir því yfir að þetta sé ekki fullrætt eða neitt ákveðið. Það er rangt hjá hv. þingmanni því að það hefur komið fram að um mánaðamótin nóvember/desember kynnti hæstv. ráðherra þessa yfirlýsingu, nákvæmlega sömu yfirlýsinguna í þingflokkum beggja stjórnarflokkanna.

Ríkisstjórn Íslands gefur ekki út yfirlýsingar af því tagi sem gefnar voru út fyrir helgina nema fyrir liggi skýr pólitískur vilji fyrir því að skapa eitt stærsta ríkisfyrirtæki Íslandssögunnar í einokunaraðstöðu á þessum markaði og selja það síðan einkaaðilum. Það er þegar búið að gefa fiskinn í sjónum. Hér er lagt upp í leiðangur til að færa einkaaðilum auðlindir landsins í orkuiðnaði.

Við skulum fagna því, ágætu alþingismenn, að það eru kosningar árið 2007. Þá gefst þjóðinni færi á að afstýra þessu voðaslysi ef hér á að fara að skapa ríkistryggða einkaeinokun á markaði fyrir nauðsynjavöru eins og rafmagn. Við vitum öll hvað það þýðir. Það þýðir einfaldlega að rafmagnsreikningurinn okkar hækkar og fjármagnseigendurnir eignast auðlindirnar sem við eigum saman í dag. Við getum í sameiningu komið í veg fyrir það en því miður, heyrist mér á máli hæstv. ráðherra, ekki fyrr en í þingkosningum vorið 2007.