131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[14:58]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt munað hjá hv. þingmanni að það var ekki meiri hluti fyrir því á þeim tíma að selja Landssímann þegar ég var samgönguráðherra. Á hinn bóginn vissi hv. þingmaður hver hugur minn var í því máli, ef stefnu minni hefði verið fylgt, vegna þess að ég lýsti því opinberlega yfir þegar á árinu 1991, í októbermánuði, að ég teldi rétt og skynsamlegt að selja Landssímann og taldi að það ætti að gera sem fyrst.

Það má kannski rifja það upp að sá maður sem nú er formaður Samfylkingarinnar var á hinn bóginn andvígur því að selja Landssímann þá eins og nú og talaði gegn því að slíkum fyrirtækjum yrði breytt í einkahlutafélög.

Nú hefur flokkur hans lagt það til að Reykjavíkurborg gangi út úr Landsvirkjun vegna þess að þeir telja, fulltrúar R-listans í Reykjavík, að of mikið sé á Reykvíkinga lagt að þeir eigi eignarhlut sinn áfram í Landsvirkjun. Hv. þm. Helgi Hjörvar kvartaði undan því að sá baggi væri orðinn þungur á Reykvíkingum að eiga hlut í Landsvirkjun. Ég er að vísu ekki þeirrar skoðunar að Reykvíkingar hafi mikið á sig lagt í þeim efnum umfram aðra menn, en eignarhlutur þeirra í Landsvirkjun er skýr eins og Akureyringa og þessir tveir flokkar, Vinstri grænir og Samfylkingin, vilja að ríkið kaupi hlut Reykjavíkur í Landsvirkjun.