131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[15:03]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals varð lítilsháttar bergmál af umræðunni sem var hérna í morgun. Hv. þingmaður sendi hv. þm. Helga Hjörvar og síðan í framhaldi af því okkur fleirum ýmis skeyti. Ég tel að við, ég og hv. þm. Helgi Hjörvar og aðrir höfum fullt leyfi til að hafa skoðun á því hvort skynsamlegt sé og eðlilegt að stjórnvöld á Íslandi hafi hug á því að steypa saman öllum orkufyrirtækjum ríkisins og einkavæða þau. Það hefur ekkert með að gera þá skoðun okkar sem ég hef oft talað fyrir á hv. Alþingi að það beri að losa Akureyringa og Reykvíkinga út úr Landsvirkjun. Það er skoðun sem ég hef haft lengi og hef talað oft fyrir í hv. þingi.

Hv. þingmaður var kominn aftur á stalínstímann á tímabili í ræðu sinni og minntist á ýmsa liðna stjórnmálamenn. Ég ætla ekki að taka upp þá umræðu en vil bara segja vegna þeirra ummæla sem hann hafði um þann sem hér stendur að það er ekki rétt að ég hafi verið alfarið á móti einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Ég hef tekið á hv. Alþingi þátt í að samþykkja einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Það getur hins vegar vel verið að ég hafi haft neikvæðar skoðanir á einhverjum einkavæðingartilburðum ríkisstjórna á Íslandi. Ég minnist þess t.d. að þær aðferðir sem voru notaðar við að einkavæða ríkisfyrirtæki sem hét Síldarverksmiðjur ríkisins sættu mikilli gagnrýni hér. Ég væri enn til í að fara í þá umræðu við hv. þingmann sem bar ábyrgð á þeirri einkavæðingu, ef einkavæðingu skyldi kalla.